Leita leiða til að bæta sýnileika og nýtingu á Snæfellsstofu
Einungis milli 10 og 20 prósent þess mikla fjölda gesta sem stoppa við Hengifoss í Fljótsdal ár hvert gerir sér far um að reka nefið inn í Snæfellsstofu þar skammt frá. Nú skal leita leiða til að auka sýnileika hússins og fjölga gestum.
Málið var sérstaklega reyfað á síðasta fundi svæðisráðs austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs um miðjan mánuðinn og það ekki í fyrsta skipti sem opnað er á þá umræðu. Nú skal kalla sérstaklega eftir hugmyndum frá nærsamfélaginu og hagsmunaaðilum um hvaða leiðir gætu verið vænlegar og verður fundað snemma á komandi ári.
Að sögn Agnesar Bráar Birgisdóttur, þjóðgarðsvarðar á austursvæðinu, er þetta ekki stórt áhyggjuefni enda sé aðsóknin bærileg heilt yfir og svipaðar aðsóknartölur þetta árið og í fyrra. En betur eflaust megi gera enda sé safnið um margt merkilegt og að hluta til einstakt.
„Yfirstandandi ár hefur ekki verið verra en undanfarin ár en það liggur fyrir að við erum ekki nægilega sýnileg og þurfum að bæta úr bæði fyrir almenning innanlands en ekki síður aðra gesti. Raunin er að hingað til hefur svo margt stoppað margt við Hengifoss án þess að halda lengra en vissulega vonum við að nýja þjónustumiðstöðin þar geti hugsanlega orðið til að benda fleirum á Snæfellsstofuna aðeins innar. Svo er þjóðgarðurinn að fara undir nýja stofnun um áramótin svo hugsanlega verða einhverjar breytingar því samhliða. En í grunninn snýst þetta um að slá aðeins í klárinn og fá fleiri til okkar en verið hefur.“
Að sögn Agnesar hafa kringum 10 til 20 prósent gesta sem heimsækja Hengifoss einnig heimsótt Snæfellsstofu gegnum tíðina og því augljós tækifæri að að auka þann fjölda með einhverjum hætti. Heildarfjöldi gesta við Hengifoss árið 2023 samkvæmt mælum Ferðamálastofu var alls rúmlega 114 þúsund manns.
Snæfellsstofa í Fljótsdal er afar áhugaverð heimsóknar en gestafjöldi brot af þeim er eyða tíma við Hengifoss örskammt frá. Mynd Visit Austurland