Leyfismál hreindýraveiðifólks í lagi

Leyfismál hreindýraveiðifólks virðast almennt vera í góðu lagi. Enginn hefur verið staðinn að ólöglegum veiðum en Umhverfisstofnun hefur undanfarna daga sinnt eftirliti með veiðunum.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að undanfarna daga hafi 28 veiðimenn verið verið stöðvaðir í fylgd 12 leiðsögumanna.

Allir veiðimenn sem lentu í úrtakinu höfðu meðferðis leyfisbréf og merki. Allir höfðu merkt felld dýr með plastmerki utan tveggja sem voru merkt á staðnum.

Þrír veiðimenn höfðu ekki tiltækt eintak af rafrænu veiðikorti en tveir þeirra gátu sýnt staðfestingarpóst frá UST um greiðslu. Stofnunin minnir veiðimenn á að gott er að vista eintak af rafræna veiðikortinu í síma svo það sé ávallt meðferðis, líka utan þjónustusvæðis.

Einn hafði gleymt skotvopnaleyfi í öðrum bíl og annar gleymt sínu leyfi heima. Ekki eru sérstök viðurlög við því en lögregla hefur heimildir til að stöðva veiðar þeirra sem ekki eru með leyfið tiltækt. Einn leiðsögumaður hafði skilið sína pappíra eftir í öðrum bíl en var með öll tilskilin leyfi.

Enginn var staðinn að ólöglegri veiði og að sögn eftirlitsmanns voru leiðsögumenn og veiðimenn almennt jákvæðir gagnvart eftirlitinu. Fyrir tveimur árum voru leyfismál ríflega 100 veiðimanna könnuð og rúm 80% þeirra fengu engar athugasemdir.

Kapp er nú að færast í veiðarnar enda veiðitímabilið tekið að styttast. Í byrjun vikunnar höfðu verið felld 577 af þeim 1450 sem veiða má, þar af voru 216 veidd í síðustu viku. Heimilt er að veiða tarfa til 15. september og kýr til 20. september.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.