Leyft að framkvæma við steinbogann í Jökulsá á Dal: Forseti bæjarstjórnar einn á móti
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir lagningu fiskvegar framhjá steinboganum í Jökulsá á Dal. Svæðið er á náttúruminjaskrá. Forseti bæjarstjórnar greiddi einn atkvæði gegn leyfinu. Hann vill frekari rannsóknir á að fiskvegurinn skili tilætluðum árangri til að réttlætanlegt sé að framkvæma við náttúruundrið.
Til stendur að fleyga fiskveig í klöppina við hliðina á urðinni sem myndar steinbogann. Forsvarsmenn Veiðifélags Jökulsár á Dal vonast til að það verði til þess að fiskur gangi upp Jökuldalinn. Með því fáist sextíu kílómetra langt vatnasvæði sem fiskurinn hefur ekki enn látið sjá sig á. Einnig fáist fiskur í þrjár þverár árinnar. Vísbendingar eru um að góðar aðstæður séu á svæðinu fyrir lax og bleikju.
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins og forseti bæjarstjórnar, greiddi einn atkvæði gegn veitingu leyfisins þegar málið var tekið fyrir í bæjarstjórn í síðustu viku. Hann vill að gerðar séu frekari kröfur um rannsóknir til þeirra sem sækja um framkvæmdaleyfi áður en hróflað verði við náttúruundrum á borð við steinbogann.
„Steinboginn í Jökulsá er mikið náttúruundur. Þegar fyrirhugaðar eru framkvæmdir á stöðum sem hafa mikið náttúruverndargildi þarf að gera miklar kröfur og vega og meta hagsmuni mjög vandlega. Í þessu máli vildi ég sjá að þeim sem sækja um framkvæmdaleyfið sé gert að rannsaka aðstæður á framkvæmdastað mun betur, sýna með skýrari hætti fram á nauðsyn þess að fara í þær óafturkræfu framkvæmdir sem gert er ráð fyrir og sýna fram á að fyrirhugaðar aðgerðir muni skila tilætluðum árangri,“ segir í bókun Stefáns Boga. Hann útilokar ekki að hann styðji framkvæmdina þegar slík rannsókn yrði lögð fram.
Fyrstu umsókninni um leyfi var hafnað í sumar. Eftir aðra umsókn og staðfestingu Skipulagsstofnunar á að fiskvegurinn þyrfti ekki í umhverfismat, var leyfið veitt háð samþykki landeigenda Sellands og Gilja. Það var samþykkt samhljóða í skipulags- og mannvirkjanefnd og svo bæjarstjórninni.
Nokkur skilyrði eru samt sett fyrir framkvæmdinni. Ekki ná hrófla við urðinni sem myndar steinbogann. Steypuna, sem notuð á, skal lita eins og bergið í gilinu. Allt rask, þar með talin slóðagerð, verði afmáð í lok verks því svæðið er á náttúruminjaskrá. Að auki verði staðið vel á öllu eftirliti með framkvæmdinni.