Löglegt lán: Stóð á forsíðunni að lánið væri í erlendum gjaldmiðlum

sparisjodur_norrdfjardar.jpg
Héraðsdómur Austurlands sýknaði nýverið Sparisjóð Norðfjarðar (SparNor) af kröfu lántakanda um að lán sem hann tók hjá sparisjóðnum í erlendri mynt en fól í sér skuldbindingu í íslenskum krónum með gengistryggingu yrði dæmt ólögmætt og endurreiknað. Dómurinn taldi að þar sem allan tíman hefði verið skýrt að lánið væri í erlendri mynt stæðist það lög.

Lánið var upphaflega tekið í nafni einstaklings árið 2006 en síðar flutt yfir á einkahlutafélag í hans eigu með sérstökum viðbótarsamningi. Lántakandinn hélt því fram að lánssamningurinn væri skuldbinding í íslenskum krónum og fjárhæð hans verðtryggð miðað við gegni erlendra gjaldmiðla. Slíkt væri í mótsögn við ákvæði í lögum um vexti og verðtryggingu.

Hann taldi lánveitinguna að öllu hafa verið skuldbindingu í íslenskum krónum. Sótt hefði verið um lán í íslenskum krónum, útborgunin hefði verið í íslenskum krónum og afborgunum sömuleiðis. Hann vísaði í dóma Hæstaréttar sem gert hefur athugasemdir við gengislán og hélt því fram að hið eina við þennan samning væri frábrugðið væri að upphæð lánsins væri skilgreind í erlendri mynt.

Lántakandinn sagðist hafa farið fram á það við Sparisjóðinn að endurreikna lánið árið 2010 en við því ekki orðið. Því hefði hann höfðað dómsmálið.

Lánið greitt í krónum að ósk lántaka

Sparisjóðurinn fór fram á sýknu á þeim forsendum að skuldbinding lántakans væri í erlendri mynt samkvæmt samningnum. Á forsíðu samningsins væri skýrt kveðið á um að um væri að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum og hvergi tilgreint jafnvirði í íslenskum krónum eins og gert hefði verið í þeim samningum sem Hæstiréttur hefði dæmt ógilda. Þá væri í samningum að finna ákvæði um erlenda millibankavexti og fleira í þeim dúr.

Lánið hefði verið greitt út í íslenskum krónum því lántakandinn hefði viljað nýta sér það þannig. Hann hefði óskað eftir að taka það í erlendri mynt, svissneskum frönkum og japönskum jenum og skilmálarnir væru eftir því.

Héraðsdómur féllst í stórum dráttum á málflutning Sparisjóðsins. Hann taldi Hæstaréttadómana ekki hafa fordæmisgildi þar sem í umræddum samningi væru upphæðir tilgreindar í erlendum upphæðum og skýrt væri að um lán í erlendri mynt væri að ræða.

Samkvæmt dómum Hæstaréttar má ekki verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum þannig það sé bundið við gengi annarra gjaldmiðla. Lán í erlendri mynt falla ekki undir þá skilgreiningu. Það hafi Hæstiréttur þegar staðfest með öðrum sparisjóðsdómi.

Eina einstaklingslánið hjá SparNor

Héraðsdómur taldi Sparisjóð Norðfjarðar hafa efnt skyldur sínar og greitt lánið út í íslenskum krónum samkvæmt ósk lántaka. Sjóðurinn var því sýknaður af kröfum stefnanda sem að auki var dæmdur til að greiða tæpar 400.000 krónur í málskostnað.

Í málflutningi Sparisjóðs Norðfjarðar fyrir dómnum segir að sjóðurinn hafi forðast að lána í erlendri mynt. Slíkt hafi aðeins verið gert við þá sem voru í miklum viðskiptum við sparisjóðinn eða sóttu það mjög fast. Alls fengu einn einstaklingur (stefnandi) og átta fyrirtæki slíkt lán á þeim tíma sem fjölmargar aðrar fjármálastofnanir gerðu það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar