Lífeyrissjóðurinn lánar Vopnafjarðarhreppi fyrir vangoldnum iðgjöldum

Lífeyrissjóðurinn Stapi lánar Vopnafjarðarhreppi rúmar 28 milljónir króna til að sveitarfélagið geti borgað sjóðnum til baka vangoldin iðgjöld frá árabilinu 2005-2016. Sjóðurinn telur farsællegast að ljúka málinu sem fyrst þótt hreppurinn hafi ekki orðið við kröfum sjóðsins til fulls.

Þetta kemur fram í bókun hreppsnefndar frá fundi í gær og bréfi lögfræðings Stapa með samkomulagsdrögum sem lá fyrir fundinum.

Stapi hafði farið fram á að hreppurinn greiddi vangoldin gjöld tímabilsins að fullu með meðalávöxtun upp á alls 72 milljónir króna. Á fundi í júní samþykkti sveitarfélagi að greiða höfuðstól kröfunnar auk vaxta áranna 2013-6, sem voru ekki fyrndir, upp á tæpar 44,2 milljónir króna.

Sextán milljónir greiddar strax

Samkvæmt samkomulaginu sem samþykkt var með atkvæðum meirihluta Betra Sigtúns og Framsóknarflokks á fundinum í gær á hreppurinn að greiða sextán milljónir króna af skuldinni strax á mánudag. Hreppurinn tekur síðan lán hjá Stapa fyrir 28,2 milljónum í viðbót og greiðir það til baka í þremur greiðslum í upphafi næstu þriggja ára, áranna 2020, 2021 og 2022. Höfuðstóll lánsins er vaxtalaus en verðtryggður.

Samhliða þessu var samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun ársins þar sem launaliður hækkar um 22 milljónir. Viðaukanum er mætt með lækkun handbærs fjár upp á 16 milljónir og lántöku upp á 28 milljónir, eins og fyrr segir.

Í bréfi lögfræðings Stapa til sveitarfélagsins er tekið fram að upphæðin dugi ekki til að koma starfsmönnum Vopnafjarðarhrepps á sama stað og þeir væru ef alltaf hefði verið greitt rétt iðgjald. Stjórn sjóðsins telur það miður en álítur að tilboð hreppsins geti þó engu að síður orðið til þess að ljúka málinu af hálfu lífeyrissjóðsins því farsælast sé að ljúka málinu sem fyrst. Þetta er þó gert með fyrirvara um að þeir sjóðsfélagar sem um ræðir geri ekki athugasemdir, eða aðrir til dæmis Fjármálaeftirlitið.

Minnihlutinn vill gera upp að fullu

Minnihluti Samfylkingarinnar í hreppsnefnd sat hjá við afgreiðsluna í gær. Í bókun minnihlutans er lýst þeirri skoðun að greiða eigi kröfu Stapa að fullu því annars sé verið að skerða lífeyrisréttindi. Þar er einnig lýst þeirri skoðun að funda hefði átt með starfsmönnunum áður en málið var afgreitt.

Fjöldi sjóðsfélaga Stapa mættu á fundinn í gær til að þrýsta á sveitarstjórn um að gera upp skuldina að fullu. Í bókun minnihlutans segir að í ljósi hversu margir hafi mætt megi fastlega búast við því að stjórn lífeyrissjóðsins endurskoði afstöðu sína.

Ekki í samræmi við þá lausn sem lagt var upp með

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, segir í svari við fyrirspurn Austurfréttar um hvort málinu sé lokið af hálfu sjóðsins eða hvort frekari aðgerðir séu fyrirhugaðar, að sjóðsfélögum verði gerð grein fyrir áhrifum uppgjörsins á hluta vangreidds mótframlags þegar niðurstaða liggi fyrir og iðgjaldaskil hafi verið leiðrétt. Niðurstaða sveitarfélagsins sé ekki í samræmi við þá lausn sem Stapi vann að í samvinnu við sveitarfélagið frá því málið kom fyrst upp. Sú lausn hafi falið í sér að sjóðfélagar yrðu ekki fyrir tjóni vegna málsins og fengju þau lífeyrisréttindi sem þeir hefðu fengið ef rétt mótframlag hefði verið greitt á réttum tíma.

Að öðru leyti geti Stapi ekki tjáð sig um skuldastöðu eða innheimtuaðgerðir gagnvart einstökum launagreiðendum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.