Líneik Anna: Mikilvægt að halda ró sinni

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði, segir erfiða stöðu vera komna upp í kjölfar harðra viðbragða í kjölfar umfjöllunar um eignir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og konu hans í skattaskjóli.


„Það er mikilvægt halda ró sinni og gefa sér tíma til að fara yfir stöðuna. Þetta hef ég sagt við menn og þetta er þingflokkurinn búinn að gera í dag,“ sagði Líneik í samtali við Austurfrétt í kvöld.

Hvernig metur þú stöðu ríkisstjórnarinnar?
„Þetta er erfitt mál en verkefni að vinna.“

Styður þú formanninn?
„Já, ég styð hann.“

Hún segist hafa heyrt í flokksmönnum eystra í dag. „Margir eru hugsi og eðlilega. Þingflokkurinn er búinn að nota daginn í að skoða stöðuna og það á við marga í kjördæminu.“

Bæjarfulltrúar og fleiri lykilmenn flokksins á Akureyri sendu í kvöld frá sér áskorun til Sigmundar Davíðs um að segja af sér. Akureyri er stærsta þéttbýli Norðausturkjördæmis þar sem Sigmundur er fyrsti þingmaður.

Aðspurð um hvaða þýðingu áskorunin hefði svaraði Líneik. „Það þarf alltaf að skoða heildarmyndina. Þetta er eitt af þeim púslum sem fram hafa komið en það er ómögulegt að segja í hvaða átt það virkar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.