Lítið að gera framundir sumar í austfirskri ferðaþjónustu
Austfirskir ferðaþjónustuaðilar bíða þess að sjá hver áhrif heimsfaraldurs kórónaveirunnar verða á ferðalög og til hvaða aðgerða íslensk stjórnvöld grípa til að mæta samdrætti í ferðaþjónustu. Þeir vonast enn eftir góðu sumri þótt ljóst sé að lítið verði að gera þangað til.„Það er ekki spurning að það verða áhrif hjá okkur hér fyrir austan, eins og í íslenskri ferðaþjónustu almennt. Það er nú þegar byrjað að afbóka mikið af gistingu á næstu vikum og mánuðum
Flugframboð hefur minnkað verulega og virðist eiga eftir að minnka enn frekar. Ef ferðamennirnir komast ekki til Keflavíkur þá komast þeir ekki til okkar,“ segir Ívar Ingimarsson, gistihúsarekandi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Samtökum aðilar ferðaþjónustunnar (SAF).
Vending eftir lokun Trump
Hann segir ákvörðun Bandaríkjaforseta um að loka fyrir gestakomur frá Evrópulöndunum hafa verið ákveðinn vendipunkt. „Við höfum fengið tugi afbókana á hverjum degi síðan þá og það eru undantekningar að nýjar bókanir berist til okkar fyrir næstu daga og vikur, ásamt því að bókanir fyrir sumarið eru mjög hægar. Fleiri lönd hafa lokað sínum landamærum og fólk er ekki á ferðinni.“
Lára Vilbergsdóttir, hjá Húsi handanna sem rekur upplýsingamiðstöð fyrir allt Austurland, segir stöðuna hafa breyst hratt. „Það er orðið rosalega rólegt en það koma samt alltaf einhverjir gestir á hverjum degi.
Við erum að fá 5-10 manns á dag, sem er svipað og í nóvember og desember sem er yfirleitt rólegasti tíminn hjá okkur. Um miðjan febrúar var farið að fjölga í 20-30 gesti á dag en svo hefur dregið úr því aftur.“
Hún segir gesti upplýsingamiðstöðvarinnar almennt rólega yfir stöðunni. „Það eru allir rólegir en meðvitaðir. Þótt ekki svo mikið talað þá finnur maður að þetta liggur í loftinu.“
Breytingar dag frá degi
Bæði Lára og Ívar benda á að óvissan sé mikil og kúvendingar dag frá degi með nýjum ákvörðunum stjórnvalda víða um heim. „Fyrir viku vonaði maður að ástandið myndi vara í 2-3 vikur. Síðan virðist sá tími lengjast sem talið er að þurfi til að faraldurinn gangi yfir. Maður heyrir frá sérfræðingum sem eru að reyna að greina áhrifin að erfitt er að átta sig á hvað er að gerast og mun gerast,“ segir hún og bætir við að rólegheitin nú verði nýtt til að undirbúa sumarið sem best.
„Maður veit ekki hvernig þetta þróast en vonar þó eins og flestir að faraldurinn gangi að mestu yfir á tveimur til þrem mánuðum, en það mun alltaf þýða að lítið verður að gera fram að sumri,“ segir Ívar.
Norræna mun ekki flytja farþega næsta mánuðinn en enn hefur engin breyting orðið á boðuðum komum skemmtiferðaskipa til Austfjarða í sumar. „Engum skipum hefur verið aflýst en við vitum ekki hvað verður mikið bókað í þau. Eflaust hefur faraldurinn áhrif, en annars erum við í sömu óvissu á þessum árstíma og önnur ár,“ segir Díana Mjöll Sveindóttir hjá Tanna Travel á Eskifirði.
Aðgerðir stjórnvalda mikilvægar
Ívar bindur vonir við þær aðgerir sem ríkisstjórn Íslands boðar til og að þær muni hjálpia ferðaþjónustufyrirtækjum í gegnum erfiða tíma. „Ég vona að með réttum aðgerðum og að faraldurinn réni að það birti til og við náum þokkalegu sumri. Allir gera sér samt grein fyrir að fækkunin verður töluverð úr því sem komið er. Það skiptir samfélagið í heild máli að það létti til áður en of langt verður liðið á sumarið.
Þótt langflest fyrirtækin hér eystra séu í fínum rekstri þá er það vandamál þegar tekjur hætta að koma inn. Þá munu þau halda að sér höndum í framkvæmdum og viðhaldi. Það er á hreinu að ef ekki koma til aðgerðir stjórnvalda verða fyrirtæki að segja upp starfsfólki. Vonandi nýta allir sér þau úrræði sem verða í boði og vonandi duga þau til. Nokkur úrræði eru þegar komin fram og við fylgjumst áfram með hvað stjórnvöld gera.“
Eitt af því sem nefnt hefur verið er átak til að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands í sumar. „Íslenskir ferðamenn hafa alltaf verið mikilvægir. Síðustu ár hefur verið ódýrt að fara erlendis og því hafa margir nýtt sér það. Vonandi verður það svo að ef takmarkanir vara áfram á ferðalögum milli landa að við heimamenn notum tímann til að kynnast okkar eigin landi betur og þeirri fjölbreyttu þjónustu og afþreyingu sem byggst hefur upp á síðustu árum. Kannski verður þetta árið þar sem við ferðumst um okkar land,“ segir Ívar.