„Lítill skóli getur alveg gert stóra hluti“
Verkmenntaskóli Austurlands (VA) hlaut í gærkvöldi Íslensku menntaverðlaunin 2024 fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Skólastjórinn og aðstoðarskólastjórinn tóku við viðurkenningu vegna þess við formlega athöfn á forsetasetrinu að Bessastöðum.
Þessi tilteknu verðlaun eru veitt að frumkvæði Samtaka iðnaðarins en Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri þeirra, sagði tilganginn þann að vekja sérstaklega athygli á framúrskarandi starfi, verki eða öðru framlagi til iðn- og verkmenntunar. Sérstaklega eftirtektarvert þótti vel heppnað verkefni VA og grunnskóla Fjarðabyggðar sem gefur nemendum elstu bekkja grunnskóla færi á að velja sem valfag að heimsækja og kynna sér hinar ýmsu námsgreinar VA tiltekinn tíma á haustin. Hugmyndin að opna augu þeirra fyrir fleiri spennandi námsmöguleikum að grunnskóla loknum.
Eydís Ásbjörnsdóttir, skólastjóri, sagði verkefnið upphaflega hafist í kjölfar skólaheimsókna starfsmanna VA til Svíðþjóðar 2012 og eftirleiðis með samvinnu við sveitarfélagið Fjarðabyggð og vinnuskólanum.
„Verkefnið hefur verið að stækka mikið síðan. Árið 2021 kom hugmynd frá núverandi fræðslustjóra Fjarðabyggðar og þáverandi skólastjóra í Fáskrúðsfjarðarskóla að setja þetta inn í val í grunnskólunum. Þannig að allir fá þetta tækifæri og við verið með góðan stuðning bæði frá Fjarðabyggð og mennta- og barnamálaráðherra sem og Alcoa-Fjarðaál. Þetta gengur gríðarlega vel og sýnir það að lítill skóli eins og okkar getur gert stóra hluti.“
Birgir Jónsson, aðstoðarskólastjóri, tók undir orð Eydísar og sagði engan vafa leika á að þessu góða starfi yrði framhaldið og um mikla hvatningu væri að ræða að fá þessi verðlaun..
„Þetta verkefni hefur verið mjög vinsælt og mikil ánægja með það þannig að þetta er ótrúlega góð hvatning að halda því áfram.“
Alls voru fimm viðurkenningar veittar skólum landsins vegna framúrskarandi starfs eða verkefna. Eydís og Birgir hér til hægri við forseta Íslands. Mynd Mummi Lú/Forsetaembættið