Endurvekja trúbadorahátíð í Neskaupstað
Litla trúbadorahátíðin verður haldin í Neskaupstað um næstu helgi. Norðfirskir tónlistarmenn mynda undirstöðuna í dagskránni en einnig kemur fram Hera Hjartardóttir. Skipuleggjandi hátíðarinnar segir hugmyndina hafa verið að safna saman því fólki í bænum sem sé að semja tónlist.
„Þetta er í raun bara lítil útgáfa af gömlu trúbadorahátíðinni sem var hér í denn. Þær voru haldnar á hverju ári og á þær komu trúbadorar hvaðanæva af landinu og spiluðu. Okkur langar að gera þetta aftur að árlegum viðburði og jafnvel gera hana í aðeins stærri mynd á næsta ári líkt og á árum áður,“ segir Pjetur St. Arason einn skipuleggjanda hátíðarinnar.
Pjetur segir að hugmyndin að hátíðinni hafi komið þannig til að Guðmundur Rafnkell Gíslason vildi safna því fólki saman sem væri að gera tónlist hér í bænum.
„Hugmyndin var að hittast eina kvöldstund, spila hvert fyrir annað og leyfa fólki að heyra hvað við værum að gera. Þegar við töluðum síðan við Hákon Hildebrand um að fá halda þetta í Beituskúrnum þá vatt þetta heldur betur upp á sig og hann vildi gera úr þessu alvöru tónleika. Hann átti hugmyndina að fá einhvern tónlistamann til þess að vera aðalnúmerið á hátíðinni og við spurðum Heru Hjartardóttur hvort hún vildi ekki vera með,“ segir Pjetur.
Heru þarf vart að kynna hún bjó lengi á Nýja Sjálandi en hefur spilað víðsvegar um heiminn, Hún gefið út talsvert af tónlist átti meðal annars tiltillagið í kvikmyndinni Hafinu, lagið Itchy Palms sem margir muna eftir.
„Föstudagkvöldið verða tónleikar með Heru þar sem hita upp fyrir hana tveir norðfirskir trúbadorar, síðan verða tónleikar á laugardeginum þar sem spila fimm austfirskir trúbadorar en Hera mun líka koma fram á þeim tónleikum og spila nokkur lög,“ segir Pjetur.
Hera Hjartardóttir. Mynd: Kyle Cassidy