Litlu munar á Framsókn og Miðflokknum á Austurlandi
Framsóknarflokkurinn mælist með mest fylgi meðal Austfirðinga í nýrri könnun, en er aðeins sjónarmun á undan Miðflokknum. Samfylkingin kemur verr út eystra en annars staðar.Þetta eru niðurstöður fylgiskönnunar sem Maskína gerði í júní. Hún er stærri en oft áður þar sem 76 svör bárust frá Austurlandi.
Þar kemur Framsóknarflokkurinn best út, mælist með 23,9% fylgi en Miðflokkurinn er skammt undan með 23,3%. Munurinn þeirra á milli er langt innan skekkjumarka. Sjálfstæðisflokkurinn er þriðji með 20,6%. Þetta er besta útkoma allra þessa flokka á landsvísu.
Samfylkingin mælist stærsta á landsvísu en fær aðeins 12,9% meðal Austfirðinga. Flokkur fólksins mælist með 8,2%, Vinstrihreyfingin – grænt framboð með 4,9%, Sósíalistaflokkurinn 2,6%, Viðreisn 2,2% og Píratar 8,2%.
Hver er staðan í Norðausturkjördæmi?
Könnun er ekki brotin niður eftir kjördæmum heldur landssvæðum. Þunginn af Norðausturkjördæmi, sem og Norðurlandi, er hins vegar á Eyjafjarðarsvæðinu. Með að bæta því svæði við Austurlandstölurnar má leiða að því líkur að þar með séu komnar tölur sem gefi mynd af stöðunni í kjördæminu. Ekki síst vegna þess að 215 svör eru frá Norðurlandi.
Með þeim er Framsóknarflokkurinn enn sterkastur með 22,42%, Miðflokkurinn fær 17,76%, Samfylkingin 17,33%, Sjálfstæðisflokkurinn 14,25%, VG 7,56%, Sósíalistaflokkurinn 5,78%, Viðreisn 5%, Flokkur fólksins 3,69% og Píratar 4,38%.
Miðað við að 11 þingsæti séu í kjördæminu fengi Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn 3 fulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn tvo og VG einn. Næstir inn væru annað hvort þriðji þingmaður Samfylkingar eða fyrsti maður Sósíalista á kostnað þriðja manns miðflokksins. Fjórði þingmaður Framsóknar er heldur ekki langt undan.
Ánægja með störf ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu
Þá hefur Maskína einnig birt könnun sína á ánægju með störf ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. Slíkar kannanir eru gerðar þrisvar á ári. Þess vegna er töluverður fjöldi á bakvið þær niðurstöður fyrir Austurland, 291 á bakvið spurninguna um ríkisstjórnina og 264 um stjórnarandstöðuna.
Á Austurlandi segjast 17,8% vera ánægð með ríkisstjórnina, 49,9% óánægð og 32,3% tiltölulega hlutlaus. Ánægja með ríkisstjórnina er almennt meiri á landsbyggðinni en í Reykjavík, þar sem 62,5% segjast óánægð en 24,1% ánægð.
Hvað störf stjórnarandstöðunnar varðar þá segjast 12,7% Austfirðinga ánægð með hana, 41,7% óánægð og 45,6% eru hlutlaus. Það eru svipaðar tölur og á landsvísu.