Ljóðaslóð sameinar menningu, náttúrufegurð og útivist steinsnar frá Djúpavogi

Forsvarsmenn listasafnsins ARS LONGA á Djúpavogi hafa farið þess á leit við sveitarfélagið Múlaþing að kosta gerð kílómetra langs göngustígs um Langatangann við bæinn en þar vilja þeir í kjölfarið skapa sérstaka Ljóðaslóð þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér 150 ljóð eftir 150 skáld frá öllum heimsálfum í góðu tómi.

Hugmyndinni hefur verið vel tekið af hálfu bæði heimastjórnar Djúpavogs sem og sveitarstjórnar Múlaþings en Langatanga heimsækir nú þegar töluverður fjöldi ferðafólks og heimamanna að sumarlagi. Hægt væri með Ljóðaslóð bæði að auka enn frekar aðdráttarafl bæjarins en ekki síður kynna ljóðlistina fyrir ungum sem öldnum.

Öll 150 ljóðin verða grafin í stóra dökka granítsteina sem standa munu við göngustíginn og þau öll á frummáli viðkomandi skálds. Sjá menn fyrir sér að þar megi bæði lesa heimsþekkt og ókunn ljóð en um þriðjungur þeirra yrðu eftir íslensk ljóðskáld. Um klukkustund tæki að ganga þennan menningarstíg en þarna allt um kring er mikil náttúrufegurð.

Að sögn verkefnisstjóra Ljóðaslóðar, Ólafs Áka Ragnarssonar, eru allnokkrir einstaklingar búnir að vinna að þessari hugmynd um tíma. Myndlistarmennirnir Þór Vigfússon og Sigurður Guðmundsson, rithöfundarnir Halldór Guðmundsson og Þórarinn Eldjárn auk bókmenntafræðingsins Ingibjargar Iðu Auðunardóttur og hönnuðarins Arnars Freys Guðmundssonar.

Ekki er enn ljóst hvort Múlaþing hyggst verða við erindinu um gerð göngustígsins en gerðar hafa verið ráðstafanir til að sækja um styrk til verksins til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem úthlutar fjármunum á komandi ári.

Tölvuteikning af útliti steinanna sem prýða munu Langatanga gangi allt eftir en þar verður hægt að lesa og kynna sér ljóð 150 ljóðskálda héðan og þaðan úr heiminum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.