Loðnuvinnslan kaupir nýjan öflugan þurrkara
Verið er að undirbúa komu nýs og öflugs þurrkara í bræðsluna hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Kemur hann í staðinn fyrir þá tvo sem fyrir voru en þeir eru orðnir rúmlega 40 ára gamlir.Fjallað er um málið á vefsíðu Loðnuvinnslunnar. Þar kemur fram að nýi þurkkarinn sé á leið til landsins. Hann er 100 tonn að stærð og mun öflugri en hinir tveir samanlagt.
Rætt er við Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri í bræðslunni sem segir að ástæða þess að ráðist var í þessi skipti væri sú að gömlu þurrkararnir þyrftu orðið nokkuð mikið viðhald en sá nýi gæfi möguleika á auknum afköstum auk þess sem honum fylgdi aukið rekstraröryggi.
“Svo er þetta enn eitt skrefið í að bæta starfsemi bræðslunnar” segir Magnús. Gömlu þurrkararnir eru þó ekki komnir á eftirlaun. Þeir hafa verið seldir og bíða ný verkefni annars staðar, að því er segir á vefsíðunni.
Þá er verið að byggja mjölskemmu við austurgafl bræðslunnar. 700 fermetra hús sem tekur rúmlega 2.000 tonn af mjöli í pokum. Grunnur og gólf er steypt og síðan kemur stálgrindarhús og verður lofthæðin 10 metrar upp í mæni.
Mynd: Annar af gömlu þurrkurunum./Friðrik Mar Guðmundsson