Loðnuvinnslan styrkir kvótann á Sandfellinu með að kaupa Borgarhöfða
Loðnuvinnslan hefur keypt útgerðina Borgarhöfða og bátinn Hafrafell með 700 tonna kvóta. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir kaupin styrkja heilsársútgerð Sandfellsins sem kom til Fáskrúðsfjarðar fyrir sléttu ári.
„Með þessum kaupum erum við komin með árskvóta á Sandfellið. Við gerðum bátinn út í 10,5 mánuði í fyrra og hann fiskaði langt umfram vonir,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.
Sandfellið kom til Loðnuvinnslunnar úr Grindavík þann 6. febrúar í fyrra. Á fyrsta árinu veiddi það 2060 tonn og var aflahæsti báturinn í krókaaflamarkskerfinu enda sá eini yfir 2000 tonnum. Aflaverðmæti þess á síðasta ári nam 500 milljónum króna.
Loðnuvinnslan keypti öll hlutabréfin í Borgarhöfða sem nú heitir BH 200 ehf. í nafni dótturfélagsins Hjálms ehf. sem gerir út Sandfellið. Borgarhöfði starfaði lengst af í Grímsey en var flutt til Akureyrar áður en Loðnuvinnslan keypti félagið.
Þannig eignaðist Loðnuvinnslan lítinn bát sem fengið hefur nafnið Hafrafall SU-85. Hann er 11,3 metrar á lengd og 14,7 brúttótonn, smíðaður af Samtaki í Hafnarfirði árið 2005.
Hafrafellið hét áður Gyða Jónsdóttir EA20. Samkvæmt tölum frá Fiskistofu var bátnum úthlutað 707 þorskígildistonnum í upphafi fiskveiðiársins 2016/2017. Langstærstur hluti þess kvóta er þorskur.
Hafrafellið hefur verið á sjó síðustu daga þar sem skipverjar eru í Félagi smábátasjómanna og þar af leiðandi ekki í verkfalli. Friðrik segir hins vegar að til standi að selja bátinn.
Borgarhöfði var ein af þremur megin útgerðum í Grímsey. Þær voru til umfjöllunar vegna áhyggna um framtíð byggðar í eyjunni í upphafi ársins 2015 en greint var frá því að þrjár stærstu útgerðirnar þar skulduðu Íslandsbanka samanlagt þrjá milljarða króna.
Í ársreikningum þeirra var greint frá því að pressa væri frá bankanum um hagræðingu í rekstri. Borgarhöfði gerði út fleiri báta en Hafrafellið var eitt eftir þegar Loðnuvinnslan keypti fyrirtækið. Kaupverðið fæst ekki gefið upp.