Lögin tekin upp í fyrri COVID bylgju og kláruð í þeirri seinni

Halldór Warén tónlistarmaður og vert á Tehúsinu á Egilsstöðum hefur sent frá sér tvö ný lög sem hægt er að ná til á spotify. Halldór kallar útgáfuna „tvíhleypu“ þar sem lögin voru samin í fyrstu bylgju COVID fyrr í ár og kláruð í þeirri seinni í sumar.

Halldór segir að verkið heiti „Without sadness is no happiness“ og er með tvö frumsamin lög eftir hann innanborðs, þ.e. „Arrival“ og „Departure“.

„Ég var með þessi lög á lager ef svo má að orði komast þegar fyrri bylgja COVID skall á síðasta vetur,“ segir Halldór.

„Þá var öllu lokað eins og menn muna. Ég notaði því tækifærið til þess að semja þau endanlega. Í síðari bylgjunni í sumar gat ég svo fínpússað þau í heimahljóðveri mínu.“

Halldór segir að fyrir utan að semja lögin, taka upp og hljóðblanda hafi það verið markmiðið að leika á öll hljóðfærin í þeim og syngja.

Sjálfur hefur Halldór verið viðriðin tónlist lengi, spilar með orgeltríóinu VAX sem hefur gefið út nokkrar skífur og gaf út spiladósardiskinn Bíum Bíum 2008. Þá framleiddi hann Kjuregej ( Lævirkjann) sem fékk meðal annars íslensku tónlistarverðlaunin árið 2013.

Mynd: Sigga Ella.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar