Lögregla beitti piparúða við að leysa upp unglingapartý: Ferlegt að svona hafi farið

Ungmennum og foreldrum í Neskaupstað er brugðið eftir að lögregla beitti piparúða við að leysa upp samkvæmi ungmenna aðfaranótt laugardags. Yfirlögregluþjónn segir slæmt að sú staða hafi komið upp að lögregluþjónar hafi talið sig þurfa að beita valdi.


Hópur unglinga leigði Blúskjallarann í Neskaupstað undir teiti fyrir og eftir árshátíð Verkmenntaskóla Austurlands. Hluti hópsins hittist þar sem sagt aftur að balli loknu.

Austurfrétt hefur rætt við nokkra einstaklinga sem voru í partýinu. Þeir segja að það hafi almennt verið rólegt en inn á milli megi gjarnan finna svarta sauði. Í teitinu hafi verið samankomnir krakkar undir lögaldri og eftir ábendingu úr nágrenninu hafi lögreglan mætt á staðinn til að stöðva unglingadrykkju.

Einkum þeir sem voru yfir lögaldri voru ósáttir við að lögreglan skyldi slíta teitinu og töldu sig í rétti til að vera í húsnæðinu. Vitni segja fleiri en fimm einstaklinga hafa fengið á sig piparúða og þrír munu leitað á Fjórðungssjúkrahúsið. Þeir partýgestir sem Austurfrétt ræddi við vildu almennt lítið tjá sig en lýstu þó þeirri skoðun að lögreglan hefði getað leyst málin á faglegri og yfirvegaðri máta.

Málið hefur verið talsvert rætt á Norðfirði eftir helgi og er ljóst að mörgum er brugðið yfir að lögregla hafi beitt piparúða á ungmennin.

Lögregluþjónar upplifðu að að þeim væri veist

Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi segir „ferlegt“ að hlutirnir hafi þróast eins og þeir gerðu. „Við viljum leggja áherslu á góð samskipti en þau verða að vera það á báða bóga og miðað við okkar upplýsingar þá voru þau það ekki.“

Jónas segir lögregluna hafa verið kallaða til vegna drykkju ungmenna undir lögaldri. Við komu í Blúskjallarann hafi verið byrjað á að skora á alla undir lögaldri að fara úr húsinu og síðan hafi verið óskað eftir að tala við þann sem leigði salinn. Enginn hafi gefið sig fram þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Þá hafi verið farið að skrá niður nöfn og kennitölur. Einn aðili hafi neitað að láta þær upplýsingar uppi. Hann hafi átt að handtaka og flytja á lögreglustöð til frekari samræðna. Þá hafi orðið æsingur og upplifun lögregluþjóna hafi verið sú að að þeim hafi verið veist.

Þá hafi piparúðinn verið tekinn fram og skorað á fólk að fara. Úr honum hafi verið sprautað þegar það gekk ekki. „Því miður verður fólk fyrir úðanum að ósekju.“

Hefði viljað að þetta hefði ekki gerst

Í samtali við Austurfrétt sagðist hann hafa fengið símtöl frá bæði foreldrum og ungmennum sem hafi óskað eftir upplýsingum.

„Ég hefði viljað að þetta hefði ekki þurft að gerast og veit að lögreglumennirnir sem stóðu frammi fyrir þessari ákvörðun eru sama sinnis. Við erum ekki í því að koma svona fram við unglinga en þarna er eitthvað sem gerist. Það er ferlegt að svona hafi farið en við verðum að verja okkur.

Við þurfum að tala við tala við ákveðna aðila en okkur er ekki hlýtt og aðrir ætla að taka ákvarðanirnar sem ekki eru til þess bærir.“

Hann segir að nánar verði farið yfir málið í næstu viku þegar lögreglustjóri kemur aftur á svæðið. Lögreglumennirnir báru myndavélar og farið verður yfir upptökur úr þeim. Að því loknu verði metið hvort ástæða sé til að leggja fram kærur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar