Lok, lok og læs hjá Bragabúð á Vopnafirði eftir rúmlega 30 ára rekstur

Eftir að hafa veitt Vopnfirðingum þjónustu um rúmlega 30 ára skeið hefur Ingólfur Arason ákveðið að loka endanlega verslunni Bragabúð.

Ingólfur, sem er lærður málari, hefur um áratugaskeið rekið litla verslun með málningarvörur og ýmislegt smálegt sem vel kemur í þarfir þeirra sem eru að breyta eða bæta á einhvern hátt. Verslunin verið opin flesta daga í hádeginu virka daga og Ingólfur opnaði dyrnar gjarnan líka þegar á þurfti að halda þess utan.

Aðspurður um orsakir þess að hann er að loka dyrum Bragabúðar hinsta sinni segir Ingólfur nokkrar ástæður fyrir því.

„Þær eru allnokkrar en þar kannski helst að ég er kominn dálítið á aldur og annað farið að heilla en að hafa ætíð opna verslun sem hefur nú kannski aldrei verið að gefa mikið í aðra hönd. Önnur veigamikil ástæða er að litablöndunartæki sem ég var með hér lengi frá Slippfélaginu svo fólk gat fengið alla þá liti sem það vildi var tekið af mér og það eitt og sér var stór grundvöllur fyrir rekstrinum.“

Ingólfur segir enn einn anga af lokuninni jafnframt vera þá að hann hafi aldrei getað keppt í verði við stórverslanir landsins og reglulega fengið að heyra hversu dýr þjónustan hafi verið.

Síðasti opnunardagur Bragabúðar er á morgun en þá ætlar Ingólfur að selja allt innandyra á 40% afslætti milli klukkan 10 og 14.

 Eftir morgundaginn þurfa Vopnfirðingar að leita öllu lengra en venjulega að málningarvörum, verkfærum og ýmsu smálegu sem þarf til að byggja og breyta. Mynd Bragabúð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.