Lokið við að leggja ljósleiðara í austfirsku þéttbýli á næstu tveimur árum

Fulltrúar Múlaþings og Fjarðabyggðar voru meðal þeirra sem í gær skrifuðu undir samning við íslenska ríkið um styrki til að ljúka við ljósleiðaravæðingu landsins fyrir lok árs 2026. Stór hluti þeirra húsa sem enn eru án ljósleiðara eru í Fjarðabyggð.

Háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, í samvinnu við innviðaráðherra, ákvað í sumar að flýta ljósleiðaravæðingu landsins um tvö ár. Áður átti að vera búið að tengja 80% lögheimila fyrir lok árs 2028 en nú á einfaldlega að ljúka við að tengja öll heimili landsins. Til þess leggur ríkið 340 milljónir í gegnum Fjarskiptasjóð.

Í mörgum tilfellum hafa minni og meðalstórir þéttbýlisstaðir setið eftir í ljósleiðaravæðingu landsins. Ljósleiðaravæðingin hófst á höfuðborgarsvæðinu á vegum einkaaðila sem séu sér hag í henni og breiddi síðan úr sér til stærri þéttbýlisstaða. Ríkið styrkti síðan ljósleiðaralagningu til sveita.

Rúm 20% ótengdra húsa í Fjarðabyggð


Fjarskiptastofa kannaði í vor áform fjarskiptafyrirtækja og annarra aðila um ljósleiðaratengingar í þéttbýli á næstu tveimur árum. Í ljós kom að 4.438 hús í 48 sveitarfélögum stóðu þá útaf. Langflest, eða 1.012, voru í Fjarðabyggð.

„Ljósleiðaravæðing í Fjarðabyggð er eitt stærsta verkefni í uppbyggingu innviða sveitarfélagsins á undanförnum árum og gegnir lykilhlutverki í því að tryggja örugga og hraða nettengingu fyrir heimili, fyrirtæki og þjónustu um allt svæðið. Þetta er okkur mikið kappsmál.

Með því að ljósleiðaravæða alla Fjarðabyggð á tveimur árum erum við að stíga mikilvægt skref inn í framtíðina gagnvart búsetukosti, atvinnuuppbyggingu og auknum lífsgæðum,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs í tilkynningu.

Í öllum byggðarkjörnum Fjarðabyggðar vantar upp á tengingar þótt í ár sé verið að tengja á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. Flest þeirra húsa sem standa út af eru í Neskaupstað, 273 talsins, 250 á Reyðarfirði, 219 á Eskifirði og 131 á Fáskrúðsfirði. Á Stöðvarfirði eru það 88 hús og 51 á Breiðdalsvík en á þeim stöðum er ljósleiðaravæðingin á móti hlutfallslega styst komin. Ekki liggur fyrir í hvaða röð byggðakjarnarnir verða tengdir.

Ekkert heimili á Djúpavogi ljósleiðaratengt


Í Múlaþingi er eftir að tengja um 350 hús á Djúpavogi, Seyðisfiðri og Borgarfirði. Stærsta verkefnið verður á Djúpavogi þar sem ekkert heimili er ljósleiðaratengt. Um 30% heimila í Bakkagerði eru með tengingu og á Seyðisfirði hafa Míla og Austurljós verið að störfum.

Haddur Áslaugsson hjá HEF veitum sem er sveitarfélaginu til ráðgjafar, segir að framkvæmdaáætlun skýrist þegar samið hafi verið við verktaka. Sveitarfélögunum er í sjálfsvald sett hvort þau ganga sjálf í verkið eða semja við verktaka. Múlaþing og Fjarðabyggð auglýstu bæði eftir samstarfsaðilum í sumar og segir Haddur að viðtökurnar hafi verið góðar.

Fjarskiptasjóður leggur fram 80.000 krónur til að kosta jarðvinnu. Alls ná samningarnir sem gerðir voru í gær til 4.251 húss. Þar með standa tæplega 200 út af. Ýmsar ástæður geta verið fyrri því, til dæmis að íbúar hafni tengingu, enginn búi í húsinu eða það sé þegar með viðunandi tengingu. Það útilokar ekki að húsið geti síðar tengst ljósleiðara.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.