Lára Vilbergs: Erum búin að selja hugmyndina

honnunarmars_2012_lara_vilbergs.jpg

Lára Vilbergsdóttir, verkefnisstjóri Þorpsins hönnunarsamfélags á Austurlandi, er ánægð með þær viðtökur sem kynningar Þorpsins hlutu á Hönnunarmars um helgina. Lára kynnti verkefnið í heild sinni ásamt austfirsku hráefni, svo sem trjávið, ull, stein, hreindýraleður og ál.

 

„Það hefur verið mikill áhugi um helgina og við fengið mjög jákvæð viðbrögð. „Við erum alveg búin að selja hugmyndina,  hönnuðir bíða spenntir eftir því að koma austur og nýta þá þjónustu sem verður í boði vonandi fljótlega,“ sagði Lára í samtali við Agl.is í lok sýningarinnar.
 
Verkefnið Þorpið hefur það að markmiði að auka fagmennsku á svið hönnunar á Austurlandi, hámarka virði staðbundinna hráefna og stuðla að atvinnusköpun á svæðinu. Á vegum Þorpsins er unnið að því að koma upp fjórum vinnustöðvum til að taka á móti hönnuðum. Lögð er áhersla á mismunandi hráefni á hverjum stað. Hreindýraafurðir og viðarnýtingu á Egilsstöðum, ull og flóka á Seyðisfirði, stein á Borgarfirði og sköpunarverksmiðjan á Stöðvarfirði ber heitið Fiskverksmiðjan. Þá hafa ungir austfirskir hönnuðir boðið álið velkomið í hráefnaflóru Austurlands. 

Þorpið vinnur einnig að verkefnum á sviði markaðssetningar á hönnun sem og eflingar á listnámi í fjórðungnum en verkefnið hlaut Evrópustyrk frá Starfmenntunaráætlun Leonardo til að efla innviði samfélagsins á sviði handverks, hönnunar og markaðssetningar.
 
„Það skiptir máli að búa til jarðveg fyrir unga fólkið sem hefur verið að mennta sig út um allan heim  þannig að þau vilji koma heim aftur og nýta sína þekkingu í bland við þá þekkingu og reynslu sem til er í fjórðungum á sviði handverks og hönnunar, þannig stuðlum við að nýsköpun."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.