Lykilatriði að láta vita ef skrýtinn hlutur finnst
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar gerðu á mánudag óvirka sprengju sem fjórir ungir drengir í fjöruferð fundu í Seyðisfirði. Sprengjan var virk og ljóst að illa hefði farið ef hún hefði sprungið í meðförum drengjanna. Móðir segir mikilvægt að útskýra fyrir börnum hvernig bregðast eigi við ef þau finni skrýtna hluti.„Það er spennandi fyrir krakka að fara inn í gömul byrgi og frelsið er okkur mikilvægt en við verum að kenna krökkunum hvernig þau eigi að bregðast við og láta vita ef þau finna skrýtna hluti,“ segir Svandís Egilsdóttir, móðir tveggja drengjanna og skólastjóri á Seyðisfirði.
Svandís var með bróður sinn, mágkonu, syni þeirra tvo og syni sína tvo, sem allir eru á aldrinum 10-12 ára á ferð í sunnanverðum Seyðisfirði, á svokölluðu Þórsplani, á sunnudag. Svandís segir að hópurinn hafi gengið þar að húsarústum, strákarnir hafi verið aðeins á undan og verið farnir að leika sér þegar fullorðna fólkið kom.
Ætluðu að opna sprengjuna
Eftir stutta stund hafi hinir fullorðnu snúið við og ætlað í bílinn en strákarnir látið bíða eftir sér. „Bróðir minn fer að spyrja hvar strákarnir séu, þeir séu örugglega að gera eitthvað af sér. Ég sagði honum að hafa ekki áhyggjur, þar sem sé fjara sé eitthvað að gera.
Hann fer til baka til að sækja þá og sér þá að þeir eru með eitthvað í höndunum sem þeir voru búnir að vera að leika sér með. Þeir voru spenntir yfir þessum fundi og ætluðu að smygla honum heim til að opna hann því það virtist vera hægt að eiga við þetta. Þegar maður er tíu ára vekur það eðlilega forvitni þegar maður rekst á hlut sem maður hefur ekki séð áður,“ segir Svandís.
Mildi að sprengjan sprakk ekki
Hún segir að bróður sínum hafi þótt hluturinn undarlegur og sannfært strákana um að láta hann eiga sig. Þau hafi tekið mynd af hlutnum, sem var eins og kaffibrúsi í laginu, og sent á lögreglu eftir leiðbeiningar frá verkstjóra hjá bænum. Lögreglan kom fljótt og gekk frá svæðinu þannig að ekki væri hætta á ferðum, að höfðu samráði við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar.
Þeir mættu svo á svæðið á mánudag, gerðu sprengjuna óvirka og eyddu henni. Í tilkynningu gæslunnar segir að sprengikúlan hafi verið virk og mildi að hún hafi ekki sprungið í höndum drengjanna.
Fortíðin bankar upp á
Svandís segir að í ljós hafi komið að sprengjan væri full af litlum stálkúlum sem væru mjög hættulegar. Hópurinn hafi aldrei upplifað sig í hættu en áfallið hafi komið eftir útskýringar Landhelgisgæslunnar.
Hún segir að sprengjan hafi verið verið inni í húsarústum og greinilegt að einhver hafði áður fundið hana á svæðinu og gengið þar frá henni. „Maður getur verið svo grandalaus fyrir því hvernig fortíðin bankar upp á. Víða á svæðinu eru byrgi frá stríðsárunum en manni finnst stríðsminjar frekar tilheyra þeirri fortíð sem maður sér á safni.“
Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar kemur fram að sprengjan sé talin vera úr lofvarnabyssu breska olíuskipsins El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar eftir að hafa sokkið í árás Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni.
Hlutir úr stríðinu finnist enn víðsvegar um landið. Þeir séu hættulegir og því er brýnt fyrir fólki að láta lögreglu eða Landhelgisgæsluna vita tafarlaust ef það finnur torkennilega hluti og snerta þá ekki. Leiki vafi á um hvort um sprengju sé að ræða er mikilvægt að sprengjusérfræðingar skeri úr um slíkt.
Myndir: Landhelgisgæslan