Lýsa efasemdum um lögmæti gjaldtöku fyrir bílastæði á Egilsstaðaflugvelli

Sveitarstjórn Múlaþings tekur á miðvikudag til afgreiðslu álit lögmanns á forsendum gjaldheimtu Isavia af bílastæðagjöldum á Egilsstaðaflugvelli. Sveitarfélög á svæðinu hafa mótmælt áformunum.

Isavia tilkynnti upp úr áramótum að bílastæðagjöld yrðu tekin upp á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. Því var frestað eftir mótmæli. Í maí var tilkynnt að byrjaði yrði að innheimta stöðugjöld frá og með 18. júní næstkomandi. Breytingin hafði verið að rýmka heimildir til styttri dvalar á völlunum auk þess sem stöðugjöld verða einnig innheimt við Reykjavíkurflugvöll.

Landsbyggðarskattur


Austfirðingar hafa brugðist illa við áformunum og þess ber merki í bókunum bæjarráðs Fjarðabyggðar og byggðaráðs Múlaþings. Í bókun Fjarðabyggðar er gjaldtökunni mótmælt og henni lýst sem landsbyggðarskatti sem valdi óhóflegri hækkun á flugi fyrir íbúa landsbyggðar sem sé mikilvægur hlekkur í almenningssamgöngum svæðið þar sem landleiðin sé tímafrek og oft ekki valkostur.

Ítrekað er að aðgengi að mikilvægri þjónustu og stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu þurfi að vera greitt. Því komi hækkunin verst niður á viðkvæmum hópum sem þurfi til dæmis að sækja heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið.

Viðbót við háan ferðakostnað


Í bókun Múlaþings er gjaldtökunni mótmælt harðlega og furðu lýst á að Isavia hafi ekki tekið tillit til ábendinga sem settar hafi verið á fundi byggðaráðs með stjórnendum Isavia í vetur. Bílastæðagjöldin eru sögð viðbótarkostnaður við háan ferðakostnað Austfirðinga við að sækja sér mikilvæga heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu, sem því miður sé ekki boðið upp á í landshlutanum.

Ráðið ítrekaði óskir um fund með innviðaráðherra um málið. Þá fól það sveitarstjóra að óska álits lögfræðings um lögmæti innheimtunnar. Jón Jónsson, lögmaður á Egilsstöðum, hefur í aðsendum greinum hér á Austurfrétt, lýst efasemdum um lögmætið.

ISAVIA á ekki landið


Hvorugur þeirra innviðaráðherra, sem setið hafa síðan fyrst var tilkynnt um gjaldtökuna um áramót, hefur orðið við óskum um fundinn. Álit lögmanns liggur hins vegar fyrir og verður tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar á miðvikudag.

„Við fengum lögmann til að fara yfir ákveðin atriði og höfum unnið álit á þessu. Eitt af því sem velt er upp er að Isavia er ekki eigandi landsins heldur rekstraraðili,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Hann segir von á ítarlegri og hreinskilinni niðurstöðu frá fundi sveitarstjórnar. „Menn hafa ekki legið á skoðunum sínum. Við höfum gert athugasemdir vegna ákveðinna atriða frá Isavia en ekki fengið nein sérstök viðbrögð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar