Makríllinn feitari og fyrr á ferðinni en undanfarin ár
Makrílvertíðin í ár hefur gengið með miklum ágætum að sögn þeirra Friðriks Mars Guðmundssonar og Kjartans Reynissonar hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði.
Friðrik Mar, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir vertíðina hafa farið nokkuð snemma af stað. „Fyrsta löndun hjá okkur í ár var 15. júlí, það er viku fyrr en árið áður. Þetta hefur gengið vel. Makríllinn var óvenjustór á Íslandsmiðum en svo er rúm vika síðan við fórum útí hina svokölluðu síldarsmugu.“
Það hefur verið þannig að makríllinn gengur í smuguna úr íslenskri lögsögu þegar líður á vertíðina, þar veiðir íslenski makrílflotinn auk rússneskra, færeyskra og grænlenskra makrílskipa. „Hoffellið er að landa núna og þessi skammtur er allur fenginn í smugunni, þetta er komið austurúr lögsögunni,“ segir Kjartan Reynisson útgerðarstjóri Loðnuvinnslunnar.
Kjartan er ánægður með vertíðina það sem af er. „Þetta hefur gengið ágætlega, við vorum byrjaðir tiltölulega snemma. Við byrjuðum að veiða við Vestmannaeyjar og fyrstu 4000 tonnin voru tekin inni í lögsögunni, stór og góður makríll.“
Friðrik Mar segir það hversu lengi vertíðin mun endast í raun byggja meira á tíma árs og ástandi makrílsins en kvóta, „Það eru komin um 5700 tonn af makríl í land. Undanfarin ár höfum við getað haldið áfram að veiða alveg út september en af því að makríllinn var fyrr á ferðinni þá geta verið einhverjar líkur á að þetta klárist fyrr, en enginn veit. Við eigum sjálfir eftir að veiða tæp 4000 tonn.“