Mál gegn Gautavíkurbændum vegna hampræktunar fellt niður

Lögreglan á Austurlandi hefur fellt niður mál gegn ábúendum í Gautavík í Berufirði sem hófst með athugasemd Lyfjastofnunar um ræktun þeirra á iðnaðarhampi. Ábúendur segja málið hafa verið sér þungbært en fagna því að geta nú haldið ótrauð áfram.

Forsaga málsins er sú að síðasta vor fluttu ábúendur í Gautavík, þau Pálmi Einarsson og Oddný Anna Björnsdóttir, inn og sáðu iðnaðarhampsfræjum. Hampur, eða iðnaðarhampur, er af ættkvísl kannabisplantna. Munurinn á honum og frænkum hans er að hann framleiðir ekki, eða í nær engu magni, virka efnið THC sem er vímugjafi.

Fræin sem þau fluttu inn eru vottuð til notkunar í ríkjum Evrópusambandsins og innihalda innan við 0,2% af THC.

Plönturnar brögguðust vel yfir sumarið og sögðu þau frá ræktuninni og afrakstri á samfélagsmiðlum, opnum fundum og í fjölmiðlum, þar með talið Austurglugganum/Austurfrétt.

Telur allar plöntur af kannabisættum ólöglegar

Matvælastofnun gaf grænt ljós á innflutning fræjanna í mars og þau voru afgreidd af tollyfirvöldum án athugasemda í apríl. Þann 22. nóvember fengu þau hins vegar þrjá fulltrúa frá lögreglunni í heimsókn sem óskuðu upplýsinga um ræktunina og tóku sýni. Aðgerðir lögreglu komu í kjölfar ábendingar frá Lyfjastofnun um að ræktunin bryti í bága við lög um ávana- og fíkniefni.

Í bréfi frá embætti lögreglustjórans á Austurlandi til ábúenda í Gautavík segir að lögreglunni hafi borist ábending frá Lyfjastofnun um að hún telji ræktun á iðnaðarhampi brot á fíkniefnalögum, eins og ef um væri að ræða ræktun á kannabisplöntunni til að vinna úr henni fíkniefnið kannabis.

Í svari stofnunarinnar til Bændablaðsins í desember, segir að löggjöfin geri ekki greinarmun á mismunandi afbrigðum kannabisplantna, né því magni virkra efna sem mismunandi afbrigði þeirra framleiði. Innflutningur, meðferð og varsla þeirra á íslensku yfirráðasvæði sé því bönnuð.

Oddný og Pálmi hafa bent á að þetta sé viðsnúningur frá fyrri afstöðu stofnunarinnar, sem 2013 heimilaði einkahlutafélaginu Landsins gæði innflutning á hampfræjum, á þeim forsendum að þau væru ekki með verulegu THC innihaldi og féllu því ekki undir fíkniefnalöggjöfina. Pálmi var einn aðstandenda félagsins. Sömu túlkun hafi stofnunin sýnt sumarið 2012 þegar Aðföng ehf. fengu að flytja inn hampfræi og hamppróteinduft til manneldis.

Virka efnið ekki mælanlegt

Sýnin, sem lögreglan tók í Gautavík í nóvember, voru send til greiningar hjá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, reyndust ekki innihalda THC í mælanlegu magni. Ennfremur fengu Gautavíkurhjónin styrk frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í desember til að þróa úrvinnslu úr iðnaðarhampinum.

Í bréfi lögreglustjóra segir að málið sé fellt niður að lokinni athugun með tilliti til röksemda hjónanna. Fyrir liggi að þau hafi hafi staðið að innflutningnum og ræktuninni teljandi sig hafa til þess leyfi og í fullum rétti. Þar með sé saknæmisskilyrðum ekki fullnægt.

Telja stofnunina ekki hafa sýnt góða stjórnsýsluhættina

Oddný Anna segir þau fagna þessum málslokum, en þó er ekki víst að málinu sé lokið af þeirra hálfu. „Við íhugum að leggja fram stjórnsýslukæru á hendur Lyfjastofnun fyrir þessa aðgerð, með það að markmiði að svona hlutir endurtaki sig ekki. Við teljum hana hvorki hafa gætt meðalhófs né sýnt góða stjórnsýslu. Við munum að minnsta kosti senda kvörtun til Umboðsmanns Alþingis.

„Í bréfi lögreglunnar er fallist á öll okkar rök. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi en að það sé negla. Að okkar mati er þessi nýja lagatúlkun stofnunarinnar röng, lög um ávana- og fíkniefni eiga ekki að koma til álita í tengslum við iðnaðarhamp þar sem ekki er hægt að vinna slík efni úr honum.

Lyfjastofnun hefur að minnsta kosti þrívegis gefið það út skriflega að lögin eigi ekki við um iðnaðarhampinn þar sem hann innihaldi ekki THC en svo skiptir hún skyndilega um skoðun í fyrra. Innan Evrópusambandsins hafa bændur í 20 ár getað fengið styrki til ræktunar iðnaðarhamps, aðildarríkin eru beinlínis skylduð til að leyfa og styrkja ræktun á iðnaðarhampi.“

Í mínum huga er þetta klárt dæmi um stofnanaofbeldi. Tæpu hálfu ári eftir að fræin fóru í jörð og eftir mikla fjölmiðlaumfjöllun, þar sem við tókum alltaf fram að við værum með leyfi frá Matvælastofnun, ákveður Lyfjastofnun að senda lögregluna til okkar fyrirvaralaust og gera okkur að sakborningum í sakamáli. Hvers vegna var ekki bara haft samband við okkur, við spurð út í málið og okkur síðan ráðlagt um framhaldið? Þetta mál hefur kostað okkur mikinn tíma, peninga og andlegt álag fyrir utan að hafa neikvæð áhrif á framgang verkefnisins,“ segir hún.

Hún segir þau hafa fundið fyrir miklum áhuga og stuðningi í ferlinu sem þau séu afar þakklát fyrir. Til dæmis hafa bæði Bændasamtökin og Samtök iðnaðarins verið þeim innan handar og hvatt yfirvöld til að leyfa innflutning, ræktun og úrvinnslu iðnaðarhamps.

Landbúnaðarráðherra vill leyfa iðnaðarhamp

Ákvörðun um niðurfellingu málsins tekur ekki af öll tvímæli um hvort innflutningur og ræktun iðnaðarhamps sé lögleg hérlendis. Von er hins vegar á að það skýrist fljótlega. Oddný segir að starfshópur þriggja ráðuneyta um framleiðslu og notkun iðnaðarhamps hafi lokið störfum.

Boltinn sé nú hjá heilbrigðisráðuneytinu, sem er yfir Lyfjastofnun. Í yfirlýsingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum covid-19 faraldursins frá í síðustu viku segir að ráðuneytin tvö munu starfa saman að ráðstöfunum til að leyfa ræktun iðnaðarhamps með skilyrðum til að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði.

„Því miður er tíminn að renna út ef bændur og framleiðendur eiga að ná að flytja inn fræ í tæka tíð fyrir sumarið. Það tekur nokkrar vikur að flytja inn fræ sem þurfa að komast ofan í jörð í maí. Ef málið skýrist ekki á allra næstu dögum missa þeir af næsta sumri sem ætti að vera sumar tilraunaræktunar um land allt við ólík skilyrði. Það væri skandall.“

Austurfrétt hefur óskað eftir viðbrögðum Lyfjastofnunar við málinu og upplýsingum um vinnubrögð stofnunarinnar í því. Von er á svari á næstu dögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar