Mannbjörg eftir eldsvoða í gamla Aðalsteini Jónssyni
Mannbjörg varð í nótt þegar eldur kom upp í rússneska togaranum Enigma Astralis. Hann hét á árunum 2006-17 Aðalsteinn Jónsson og var gerður út af Eskju.Samkvæmt rússneskum fréttastofum kom eldurinn upp í skipinu þar sem það var á reiki á Okhotsk hafi, um 200 km suðaustur af bænum Magadan á austurströnd Rússlands.
Talsmaður eiganda skipsins, Dobroflot, hefur staðfest að 47 manna áhöfn hafi verið bjargað í nærliggjandi björgunarskip. Ekki er talin hætta á umhverfisslysi.
Fyrstu fréttir rússneskra fjölmiðla voru birtar um klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma, en í þeim segir að eldurinn hafi komið upp seinni part þriðjudagsins 21. janúar, en Magadan er níu tímum á undan Íslandi. Miðað við fréttaskeyti virðist eldurinn ekki hafa verið mikill um sig en talsverðan reyk lagði frá skipinu, eins og sjá má hér í myndbandi rússnesku fréttastöðvarinnar 5-TV. Rússnesk samgönguyfirvöld hafa hafið rannsókn á eldsupptökum.
Skipið var smíðað árið 2001 en kom til Eskifjarðar árið 2006 og hlaut á nafnið Aðalsteinn Jónsson. Það hafði það nafn uns nýtt skip var keypt til að taka við af því árið 2016. Það var síðan selt til grænlenskrar útgerðar ári síðar. Nú er það í eigu Dobroflot og er skráð í Vladivostok.