„Manni blöskrar allt þetta dót“

„Þetta er bara alveg frábært og hvetur okkur til þess að halda áfram og önnur göngufélög til að gera slíkt hið sama,“ segir Eyþór Friðbergsson, formaður Göngufélags Suðurfjarða, sem í gær hlaut viðurkenningu frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands (NAUST) fyrir framlag sitt til náttúruverndar.


Verðlaunin voru veitt á „degi umhverfisins“, en meðlimir Göngufélags Suðurfjarða hafa undanfarin þrjú ár gengið strandlengjuna frá Fáskrúðsfirði suður í Kambanesskriður og hreinsað fjörur, auk þess sem hópurinn hefur einnig hreinsað fjörur út í Vattarnesskriðum.

Framundan er fjórða árið í röð sem hópurinn stendur fyrir átakinu og hefst það formlega laugardaginn 5. maí með hreinsunardegi sem unnin verður í samvinnu við í samvinnu við Björgunarsveitina Geisla á Fáskrúðsfirði. Í kjölfarið mun göngufélagið tína rusl alla þriðjudaga í maí.

„Göngufélag Suðurfjarða er með þessu verkefni góð fyrirmynd og hvatning fyrir önnur félög og samtök hér á Austurlandi sem og annarstaðar á landinu öllu,“ segir Þórveig Jóhannsdóttir, forstöðukona NAUST.

„Virkilega gefandi að fara í göngutúr og hreinsa umhverfið í leiðinni“
„Þetta hvetur okkur bara ennfrekar til þess að halda áfram að ganga og hreinsa fjörurnar í leiðinni og gera okkar besta til þess að halda strandlengjunni eins hreinni og við getum,“ segir Eyþór.

Eyþór segir að hópurinn sem kemur saman sé misstór, allt frá þremur göngugörpum upp í tíu. Hann segir ýmislegt reka á þeirra fjörur. „Það eru bæði netadræsur, allskonar plast, járn, korkur og jafnvel fiskikör – manni blöskrar allt þetta dót. Það er þó mín tilfinning að bátarnir séu ekki lengur að henda rusli í sjóinn, en þetta virðist mest allt vera gamalt og vera búið að veltast lengi í sjónum.“

Segja má að Göngufélag Suðurfjarða hafi verið nokkuð á undan sinni samtíð, en um þessar mundir keppast fjölmiðlar við að segja fréttir af fólki sem er að „plokka“, þar sem gönguferðir eða hlaupatúrar eru nýttir til þess að týna rusl.

„Það er bara gaman af því að vera með í þessu og sjálfum finnst mér virkilega gefandi að fara í göngutúr og hreinsa umhverfið í leiðinni,“ segir Eyþór, sem bætir því við að félagið standi einni fyrir annarsskonar skipulögðum göngum, en hér má skoða Facebook-síðu félagsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.