María Hjálmarsdóttir: Lundúnaflugið er risastórt skref í íslenskri ferðaþjónustu

Verkefnastjóri hjá Austurbrú segir það hafa verið lærdómsríkt að koma á beinu flugi milli Egilsstaða og Gatwick flugvallar við London sem hófst í dag. Vinna í markaðssetningu á fluginu eigi eftir að skila sér á næstu árum.


„Ég brosi í dag, það er ekki hægt annað. Þetta risastórt skref í rétta átt, ekki bara fyrir Austurland heldur íslenska ferðaþjónustu,“ segir María Hjálmarsdóttir sem stýrir markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar hjá Austurbrú.

Fyrsta vél AirBaltic sem flýgur milli Egilsstaða og Gatwick í sumar kom til Egilsstaða í dag. Ákvörðun um flugið var tekin síðasta haust en undirbúningur þess hefur staðið mun lengur.

Upphaflega stóð til að fljúga 36 ferðir en ferðunum var fækkað í níu þar sem salan stóð ekki undir væntingum. María segir að uppbygging flugleiðarinnar sé langtímaverkefni.

„Það tekur 3-5 ár að markaðssetja nýja flugleið. Við vonumst eftir að þessu verði haldið áfram og eftir nokkur ár standi flugið undir sér.

Við erum þakklát fyrir að einhver tekur þetta skref. Það var við því að búast að fyrsta árið yrði erfitt og við berjumst áfram fyrir þessu og við gerum það áfram.

Það er enn unnið að markaðssetningu og því koma enn blaðamenn og bloggarar hingað. Við tökum vel á móti þeim sem koma. Það eru bókaðir hópar í hverja vél í sumar sem er jákvætt.

Þetta hefur verið lærdómsríkt ferli sem við förum vel yfir í næsta sumar. Þetta er mikið frumkvöðlaverkefni sem við vonumst til að verði líka í boði næsta sumar. Flugið er lúxus fyrir heimamenn og ég hvet þá áfram til að nýta flugið.“

Þótt flugferðirnar verði ekki margar segir María þær skipta máli fyrir austfirska ferðaþjónustu og atvinnulíf. Mikið hefur verið lagt í markaðssetningu Austurlands í Bretlandi og sá árangur gæti skilað sér á næstu árum.

„Við höfum verið sýnileg í stærstu miðlum Bretlands og það skilar sér í framtíðina. Þar verðum við að horfa á stóru myndina.

Við finnum að við keppum við áfangastaðinn suðvesturhornið. Markaðsefni tengt Austurlandi hefur vakið athygli og það eru viðskiptavinir að koma til Íslands í fyrsta sinn í ár með Discover the World en þeir koma ekki endilega beint til Austurlands.

Þeir byrja á suðvesturhorninu en gætu komið beint til okkar eftir 3-4 ár. Þess vegna er svo mikið skref að byggja upp áfangastaðinn. Það þarf líka pressu frá Íslandsstofu og fleirum á landsbyggðina.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.