Markmiðið að skilja betur lífshlaup laxins

Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe hyggst veita andvirði 85 milljóna króna á næstu fjórum árum til rannsókna á lifnaðarháttum villta laxastofnsins. Yfirlýst markmið er að skilja betur lífshætti laxins til að geta búið honum betra umhverfi. Til þess þurfi fyrsta flokks rannsóknir.

Þetta var meðal þess sem fram kom á kynningarfundi fyrir fjölmiðlafólk sem haldinn var í veiðihúsinu við Selá í gær. Þar var farið nánar ofan í rannsóknir sem unnar verða í samstarfi Imperial háskóla í Lundúnum og Hafrannsóknastofnunar á lífríki fjögurra áa á næstu árum.

Þau vatnsföll sem þegar hafa verið tekin inn í verkefnið eru Hofsá, Selá og Vesturdalsá í Vopnafirði auk Miðfjarðarár, sem fellur í samnefndan fjörð milli Bakkafjarðar og Finnafjarðar.

Vilja skilja hvað er að gerast með laxinn

Peter S. Williams, tæknistjóri Ineos, fyrirtækis Ratcliffe, sagði hvatann að rannsóknunum vera að fall hefði verið í laxastofninum víða um heim. Stofninn hefði verið stöðugri á Íslandi en þó hefði hallað undan fæti á Norðausturlandi síðustu tíu ár.

Aðspurður hvort mikil flóð í ánum í Vopnafirði vorin 2013 og 14, sem ollu miklum skemmdum á búsvæði laxins, sagði Peter að eitt markmiða rannsóknanna væri að öðlast skilning á þeim. „Við vitum að það eru sveiflur í stofninum en markmið okkar er meðal annars að skilja hvað er að gerast til lengri tíma litið.“

Peter hefur umsjón með verkefninu fyrir hönd Ratcliffe og hafði frumkvæði að því að leiða saman Hafrannsóknastofnun og breska háskólann. „Hafrannsóknastofnun hefur skilning og gögn um það sem er að gerast á Íslandi. Við viljum byggja á því sem gert hefur verið. Sérfræðingar Imperial háskóla sjá um vistfræðihlutann.“

Tækjabúnaði komið upp í næstu viku

Peter sagði að áfram yrði haldið með allar þær verndaraðgerðir sem í gangi hafa verið á vatnasviðinu en ítarlegum rannsóknum verði bætt við til að skilja hvað sé að gerast í ánum. Strax í næstu viku verða sett upp hlið með nemum á þremur stöðum í Vesturdalsá. Hliði skynja ferðir fiska sem merktir hafa verið með PIT segulmerkjum. Búið er að merkja um 2000 seiði. Hægt er að greina hvaða einstaklingar eru á ferðinni og skilja þannig betur lifnaðarhætti þeirra. Tæknin hefur þegar skilað nýrri þekkingu þar sem hún hefur verið nýtt.

„Við getum lært meira um hvaða hluti árinnar skilar mestri framleiðslu og hvaðan þeir laxar koma sem líklegastir eru til að lifa af. Það segir okkur meira um hvaða svæði þarf að vernda, eins hvar þurfi mögulega að setja upp laxastiga og hvort þeir virki,“ sagði Rasmus Lauridsen, yfirmaður fiskveiðirannsókna hjá Game & Wildlife Conservation Trust. Hann sagði að nýjar rannsóknir sýndu að laxar sem væru 160 mm að lengd væru þrisvar sinnum líklegri til að skila sér aftur úr sjó heldur en þeir sem væri 120 mm. Lífslíkur þeirra stærri eru meiri.

Upplýsingar sem skipta máli á heimsvísu

Peter sagði einnig unnið að því að skilja fæðukerfi og lífmassa í vistkerfum ánna. Nýlega var opnaður laxastigi í Miðfjarðará eftir að rannsóknir höfðu bent til þess að ofan hans væri vistkerfi sem vel gæti hýst fleiri laxa. Náið verði fylgst með árangri stigans. „Vilji okkar stendur til að gera Ísland að griðarstað laxsins og tryggja að við skiljum við árnar í betra ásigkomulagi fyrir næstu kynslóðir,“ sagði Peter.

„Í mínum huga þarf alþjóðlega samvinnu í verkefni sem þetta og við komum með hana,“ bætti hann við. Bæði hann og Rasmus bentu á að gögn úr Vesturdalsá þættu mikilvæg meðal vísindamanna á heimsvísu og nýttust við alþjóðlega stefnumótun. „Árnar hér eru einstakar og Vesturdalsáin er alþjóðlega mikilvæg. Þetta verkefni getur haft áhrif á villta Atlantshafslaxinn á heimsvísu,“ sagði Peter.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri deildar ferskvatnsfiska hjá Hafrannsóknastofnun, sagði að allar aðgerðir til þessa til að styrkja laxinn í ánum á Norðausturlandi hefðu skilað árangri. Guðni sagði frá tilraunum með frjóvguð egg sem grafin eru í farvegi ánna. „Með þeim getum við komist á svæði sem laxinn kemst ekki á sjálfur. Með að koma eggjunum fyrir gefst okkur tækifæri til rannsókna, til dæmis að bera saman ólík svæði og hvernig eggin dreifast frá ákveðnu svæði.“

Í tengslum við verkefnið stendur til við að ráða tvo doktorsnema, annan frá Imperial skóla, hinn frá Íslandi. Guðni sagði að þeir ættu eftir að verða afar mikilvægir. „Við verðum að tryggja að við höfum bestu vísindaþekkinguna til að skilja betur breytilegt umhverfi.“

Trjárækt til að efla vistkerfið

Tilraunir með skógrækt og landgræðslu er eitt af því sem stendur til að gera til að bæta vistkerfi ánna. „Meðfram Selá, einkum á heiðunum, er vandamál með landfok. Hinar árnar eru betur varðar,“ sagði Else Möller, verkefnastjóri skógræktar hjá Vopnafjarðarhreppi.

Í sumar var gróðursett birki, lerki og víðir á tíu stöðum meðfram ánni. Kannað verður hvaða tegundir þrífast best og á hvaða svæðum. Síðan verður tekin ákvörðun um frekari gróðursetningu. Else sagði ekki markmið að rækta upp ferkantaða skógarreiti heldur náttúruleg trjásvæði sem féllu vel inn í umhverfið.

Fjármögnun hefur ekki áhrif á niðurstöðurnar

Aðspurður sagði Peter að þótt félög tengd Ratcliffe legðu fjármagn til rannsóknanna væri ekki verið að stýra niðurstöðunum á neinn hátt. „Við erum opin fyrir öllum niðurstöðum. Það skiptir okkur máli að fá fyrsta flokks vísindarannsókn,“ sagði hann og bætti við að niðurstöður yrðu birtar.

Michael Murphy, varaforseti Imperial, sagði að niðurstöður rannsóknanna yrðu opnar fyrir ritrýni meðal fræðimanna til að styrkja þær. Guðni sagði frelsi vísindafólksins skipta miklu. Fjármunirnir nýttust mest í að borga laun doktorsnemanna, búnað og fleira þess háttar sem aftur gerði kleift að ráðast í rannsóknirnar.

Rasmus kvaðst hafa nokkra reynslu af að vinna rannsóknir kostaðar af einkaaðilum. Alltaf yrði að uppfylla ákveðnar vísindalegar kröfur áður en farið yrði af stað. Fjármögnun hefði áhrif á hvaða spurninga væri spurt en ekki á niðurstöður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar