MAST vill aukna vöktun eftir flúromengun

alver_eldur_0004_web.jpg
Matvælastofnun telur ástæður til að fylgjast áfram með áhrifum flúormengunarinnar, sem varð í Reyðarfirði frá álveri Alcoa Fjarðaáls í sumar, á ung dýr. Ekki er víst að áhrifin komi fram fyrr en að nokkrum árum liðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í morgun. Þar segir að ekki sé hægt að útiloka að flúormengunin í sumar geti síðar haft neikvæð áhrif á tannheilsu ungra dýra. Því hefur verið óskað eftir aukinni vöktun á svæðinu.

MAST byggir þetta á niðurstöðum skoðana á lifandi dýrum og beinum sláturdýra. Komist ungviði í snertingu við of mikinn flúor þegar glerungur tannanna er að myndast er hætta á að glerungurinn fái ekki eðlilegan styrk. Þá er hætta á tannskemmdum síðar.

Því telur stofnunin ástæðu til að fylgjast með tönnum líflamba og ungra kinda, folalda og tryppa (1-4 vetra á árinu 2012), ásetningskálfa, kvíga og ungra mjólkurkúa. „Erfitt getur reynst að greina einkennin fyrr en einu til tveimur árum eftir að flúoreitrun hefur átt sér stað og því ekki ástæða til skoðunar fyrr en að þeim tíma liðnum.“

Tekið er fram að sýni sem tekin voru úr heyi hafi verið undir mörkum og fóðrið því í leyfi. Ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af dýrunum að svo stöddu en passa varði að ungviðið fái ekki mengað fóður í framtíðinni.

„Af þessum ástæðum hefur Matvælastofnun óskað eftir því við Umhverfisstofnun að vöktun verði aukin, m.a. með fleiri sýnatökustöðum og skoðun beina úr sláturgripum af svæðinu.

Eins og áður hefur komið fram er ekki tilefni til að ætla að fólki stafi hætta af neyslu búfjárafurða eða matjurta af svæðinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar