Langbylgjumastrið á Eiðum ei meir

Laust fyrir hádegi í dag var 220 metra hátt langbylgjumastrið á Eiðum fellt og gekk sá gjörningur vonum framar að sögn sérfræðinga á svæðinu. Aðeins þurfti að skera á ein tvö stög til að þetta þriðja hæsta mannvirki landsins hrundi með brauki og bramli.

„Við áttum alveg eins von á að þetta myndi gerast með þessum hætti frekar en falla í heilu lagi,“ sagði Bragi Reynisson, forstöðumaður tæknisviðs Ríkisútvarpsins, þegar mastrið var fallið. Það gekk hratt fyrir sig og einungis þurfti að klippa á tvo stálvíra áður en efsti hluti mastursins gaf sig, sá hluti slóst svo utan í neðri hluta þess sem í kjölfarið bognaði og gaf sig líka og þá kom allt ferlíkið niður.

Fyrirfram var ekki vitað hvort mastrið myndi leggjast í heilu lagi niður eða kubbast niður eins og raunin varð en að sögn Braga var jákvætt að það féll eins og það gerði því brakið var nánast allt á einum stað sem auðveldar til muna að hreinsa svæðið og koma brotajárninu í endurvinnslu.

Allnokkur fjöldi fólks gerði sér ferð að Eiðum til að verða vitni að þessu andartaki en lögregla var á staðnum og aftraði því að fólk færi of nærri.

Mastrið, eða öllu heldur björt blikkandi ljós hátt á mastrinu, hafa í áratugi valdið fólki í sveitum í kring nokkrum óþægindum enda blikkað linnulítið allan sólarhringinn. Þá hefur hátt mastrið einnig skapað aukna hættu vegna flugs til og frá Egilsstaðaflugvelli gegnum tíðina.

Forsíðumynd tekin þegar efstu hlutinn féll á neðri hluta mastursins sem bognaði í kjölfarið og kubbaðist niður á jörð. Mynd AE

Meðfylgjandi mynd sýnir brakið á jörðu niðri en sérfræðingar RÚV auk annarra sem komu að því að fella mastrið voru ánægðir með hvernig til tókst. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar