ME og VA hljóta jafnlaunavottun
Menntaskólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskóli Austurlands hlutu á dögunum jafnlaunavottun. Skólarnir hafa komið sér upp kerfi sem á að tryggja það að greidd verði til dæmis sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Hefur mikla þýðingu
Birgir Jónsson gæða- og verkefnastjóri hjá Verkmenntaskóla Austurlands og Elín Rán Björnsdóttir mannauðstjóri Menntaskólans á Egilsstöðum segja að þessi vottun hafi afar mikla þýðingu fyrir skólana báða.
„Vottunin hefur því gríðarlega mikla þýðingu fyrir skólann, bæði sem menntastofnun og sem vinnustað, því í henni felst ákveðinn gæðastimpill,“ segir Birgir
Elín Rán Björnsdóttir mannauðstjóri Menntaskólans á Egilsstöðum tekur í sama streng.
„Vottunin skiptir okkur máli því nú erum við komin með stimpil sem segir að við séum að vanda til verka, gæðastimpill. Eins gefur þetta til kynna að jafnréttismálin eru í öndvegi hjá okkur, enda er eitt af gildum skólans jafnrétti,“ segir Elín.
Vinnan heldur áfram
„Með þessu hefur VA komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggja á að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun,“ segir Birgir
Elín Rán bætir við að þó að vottun sé komin, halda þau áfram að þróa kerfið, rýna, bæta og breyta. Svo verða úttektir árlega hér eftir, mis umfangsmiklar.
„Meðal þess sem staðallinn gerir kröfu um eru stöðugar umbætur. Vottunin er fyrsta skrefið í vinnunni og nú höldum við áfram að gera betur og betur. Vinnan hefur opnað augu okkar enn betur gagnvart ýmsum þáttum sem snúa að starfsmannamálum og hefur hjálpað okkur við að skerpa á ýmsum ferlum sem að þeim snúa,“ segir Birgir
Elín segir að þetta krefjist þess að hlutirnir séu alltaf gerðir eins, að eftirlitið sé virkt og starfsfólkið sé alltaf að reyna að bæta sig. „Við höfum ákveðinn ramma í okkar launaumhverfi sem eru stofnanasamningar og verður forvitnilegt að sjá hvernig þróun þeirra verður eftir að allar ríkisstofnanir verða komnar með jafnlaunavottun.“
Gildir í þrjú ár
Vottunin gildir í þrjú ár en eftirlitsúttektir fara fram einu sinni á ári og svo heildarúttekt í lok gildistímans. Í eftirlitsúttektum er verið að fara yfir virkni kerfisins.
„Hluti af kerfinu er virkt eftirlit og rýni. Meðal þess sem stuðlar að því eru innri úttektir, launagreiningar og rýni stjórnenda,“ segir Birgir.
Undirbúningur og innleiðing á þessu ferli hófst í haust. „Við alla vinnuna var mjög góð samvinna við aðra skóla, þá sérstaklega við ME. Þegar vinnan var komin vel af stað var leitað tilboða í vottun og var samið við faggilta vottunaraðilann iCert.“
Þegar VA taldi sig vera orðin klár með kerfið var fundinn tími í forvottun. Í henni er farið yfir þá ferla sem höfðu verið settir upp og þeir metnir.
„Vottunaraðilinn kom svo með athugasemdir í kjölfar forvottunar sem við notuðum næstu misseri til að vinna úr. Í febrúar komu iCert síðan austur og framkvæmdu svokallaða vottunarúttekt þar sem við eyddum tveimur góðum dögum saman í því að útskýra kerfið í heild,“ segir Birgir.
Menntaskólinn fór í forvottun í lok nóvember og fengum einnig smávægilegar athugsemdir sem þau lagfærðum og fóru svo í vottunina í febrúar. „Þar gekk allt vel, gerðum smávegilegar breytingar eftir vottunarfundina og fengum vottun í kjölfarið. Það var fyrirtækið Versa Vottun sem tók út kerfið okkar.
Báðir skólarnir fengu örfáar athugasemdir frá úttektaraðilum sínum sem skólarnir brugðust við. Í kjölfarið sendi iCert tilkynningu fyrir hönd VA og Versa Vottun fyrir ME til Jafnréttisstofu sem leiddi síðan af sér vottunina.
Merki Jafnlaunavottunarinnar.