Meintur gerandi yfirheyrður síðar í dag
Lögreglan á Austurlandi rannsakar nú lífshættulega árás eftir að maður var stunginn með hnífi í heimahúsi í Neskaupstað um miðnætti. Einn er í haldi lögreglu vegna málsins.Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á Landsspítalann með lífhættulega áverka. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er líðan hans nú stöðug en hann mikið slasaður.
Meintur gerandi var handtekinn og gisti fangageymslur í nótt. Til stendur að yfirheyra hann seinni partinn. Afstaða verður þá tekin til framhalds málsins sem flokkast sem stórfelld líkamsárás. Ekki liggja fleiri undir grun eða taldir tengjast málinu.
Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn, segir lítið hægt að segja um rannsóknina á þessu stigi málsins. Von er á sérfræðingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu austur í dag til aðstoðar við vettvangsrannsókn.
Tónlistarhátíðin Eistnaflug hófst í Neskaupstað í gærkvöldi. Hún hefur farið vel fram til þessa og er árásin algjörlega ótengd henni.