Meira en 10% kjósenda í Norðausturkjördæmi á meðmælendalistum

Framboð til Alþingis í Norðausturkjördæmi hafa nóg að gera við að safna undirskriftum til að gera framboðslista sína gilda. Þau þurfa að lágmarki 3.600 undirskriftir til að fá gilda lista. Fleiri reglur útiloka fleiri í viðbót.

Í Norðausturkjördæmi eru alls 10 þingsæti og þurfa þrjátíu sinnum fleiri að mæla með lista til að hann teljist gildur. Það þýðir að 300 manns þurfa að mæla með hverjum lista í Norðausturkjördæmi.

Tólf framboð safna nú undirskriftum fyrir framboðum. Þetta þýðir að minnst 3.600 undirskriftir þarf til að öll framboðin geti boðið fram á svæðinu. Til að mæla með framboði þarf einstaklingur að vera á kjörskrá í kjördæminu.

Í forsetakosningunum í sumar voru 30.840 manns á kjörskrá í kjördæminu. Miðað við það þurfa 11,67% þurfa að mæla með lista. Greidd atkvæði í kjördæminu þá voru 25.540. Út frá þeirri tölu færi hlutfallið í 14%.

Aðeins má mæla með einu framboði


En það gilda fleiri reglur sem gera undirskriftasöfnunina snúnari. Flest framboðin munu safna fleiri undirskriftum til öryggis. Hver kjósandi má aðeins mæla með einu framboði. Skrifi hann undir á mörgum stöðum ógildist undirskrift hans alls staðar.

Samkvæmt upplýsingum frá landskjörstjórn á að vera komið í veg fyrir þetta í rafrænni undirskriftasöfnun. Einhver framboð safna þó líka undirskriftum á pappír. Þetta er eitt af því sem landskjörstjórn fer yfir þegar hún fær framboðin í hendurnar.

Hverjir mega ekki mæla með framboði?


Frambjóðendur á lista geta ekki verið meðmælendur listans. . Frambjóðendur eru að lágmarki 10 á lista, að hámarki 20 í Norðausturkjördæmi. Tólf framboð þýða að 120-240 manns verða í framboði í Norðausturkjördæmi í ár. Staðan er þó sú að ekki er skylda að vera með kosningarétt í kjördæmi til að geta boðið sig þar fram.

Að auki geta stjórnarmenn í landskjörstjórn, yfirkjörstjórn kjördæmis eða yfirkjörstjórn sveitarfélags ekki mælt með framboði. Í yfirkjörstjórnunum eru að jafnaði þrír einstaklingar og í kjördæminu 15 sveitarfélög. Þessi regla útilokar þar með tæplega 50 manna hóp frá undirskriftum.

Að endingu er vert að nefna að framboð í kjördæminu má að hámarki safna 400 undirskriftum. Ef farið er framyfir strikast undirskriftir eftir þá 400. í röðinni út.

Hvenær er skilafrestur?


Eflaust verður handagangur í öskjunni hjá einhverjum í þessari viku samhliða því sem frestur til að skila inn framboðslistum með undirskriftum. Fyrsta tímasetningin sem vert er að hafa í huga er hádegi þriðjudagsins 29. október þegar Þjóðskrá gefur út kjörskrá.

Landskjörstjórn byrjar að taka á móti listum á miðvikudag en frestur til að skila þeim inn rennur út á hádegi á fimmtudag, 31. október. Hún hefur frest til kl. 16. á sunnudag til að fara yfir listana og úrskurða um gild framboð. Á þeim tíma eru framboðin látin vita ef upp á vantar, svo sem að undirskriftir séu ekki nógu margar ef undirskriftir frambjóðenda vantar.

Á þessum tíma mun landskjörstjórn láta framboðin vita um ákvörðun sína. Eftir að hún hefur verið afhent umboðsmanni framboðs hefur það 20 klukkustundir til að kæra hana til úrskurðarnefndar kosningamála. Slíkt gerðist í vor þegar Viktor Traustason, sem nú er kominn í framboð fyrir Pírata í Norðausturkjördæmi, fékk snúið úrskurði landskjörstjórnar um að framboðs hans væri ekki gilt. Hann fékk auka tíma til að lagfæra það sem vantaði upp á, sem hann og gerði.

Á þriðjudag í næstu viku ætti því að vera orðið nokkuð ljóst hvaða listar verða í boði í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum þann 30. nóvember næstkomandi. Landskjörstjórn áætlar að auglýsa staðfesta framboðslista á tímabilinu 4. – 6. nóvember, það er frá mánudegi til miðvikudags í næstu viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.