Meiri kvóti til Breiðdalsvíkur: Fögnum þessari niðurstöðu

Oddviti Breiðdalshrepps gleðst yfir ákvörðun Byggðastofnunar um að bæta við 100 tonna byggðakvóta frá og með núverandi fiskveiðiári. Það eigi að duga til að tryggja áframhaldandi vinnslu á staðnum.


Stjórn Byggðastofnunar ákvað á síðasta fundi sínum að auglýsa eftir samstarfsaðilum um nýtingu 100 tonna viðbótaraflaheimilda á Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Raufarhöfn og Breiðdalsvík. Markmiðið er að efla byggðir sem háðar eru sjávarútvegi og standa frammi fyrir bráðum og alvarlegum vanda vegna skorts á aflaheimilum eða óstöðugleika í sjávarútvegi.

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps þrýsti í sumar á úthlutun aflaheimildanna til að tryggja áframhaldandi vinnslu Ísfisks á staðnum en hún hafði verið stöðvuð og útlit var fyrir að hún færi ekki af stað aftur í bráð.

Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps, segir viðbótina í samræmi við væntingar sveitastjórnar og vonast til að vinnsla Ísfisks fari af stað aftur í vikunni.

„Við bindum miklar vonir við þessa aukningu og varla hægt að gera ráð fyrir hærra framlagi en fékkst. Því fögnum við þessari niðurstöðu og horfum björtum augum fram á veginn.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.