Meiri þátttaka utankjörfundar en áður

Tæplega 550 atkvæði hafa verið greidd utankjörfundar á Austurlandi fyrir Alþingiskosningarnar á laugardag. Það er meira en venjan er. Sýslumaður telur breytt viðhorf til utankjörfundaratkvæðagreiðslu eiga stóran þátt í þessu.

Í gær höfðu alls 545 greitt atkvæði utankjörfundar hjá sýslumanninum á Austurlandi. Lárus Bjarnason, sýslumaður, segir það töluvert meira en sést hafi áður, til dæmis hafi atkvæði greidd á skrifstofunni á Seyðisfirði þegar náð þeirri tölu.

Venjan sé síðan fyrir því að mestur þungi í utankjörfundarkosningunni sé síðustu tvo dagana fyrir kjördag. „Heimamenn koma fram á síðustu stundu, hringja jafnvel eftir lokun daginn fyrir kjördag.“

Í vikunni hefur meðal annars verið kosið á hjúkrunar- og öldrunarheimilum auk þess sem sérstök kosning er sett upp fyrir þá sem eru í einangrun eða sóttkví vegna Covid-faraldursins. Þeir þurfa að kjósa úr bílum sínum. Slík kosning hefst til dæmis við Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði klukkan 10:30 og var Lárus þar ásamt fleiri starfsmönnum embættisins að gera allt tilbúið þegar Austurfrétt ræddi við hann.

Sú kosning stendur til um klukkan 17:00 í dag. Hún er aðeins ætluð þeim sem verða í einangrun eða sóttkví á kjördag. Verulega hefur fækkað í þeim hópi sem er í sóttkví í kjölfar hópsmits á Reyðarfirði.

Óvenju mikil þátttaka er í utankjörfundarkosningunni í ár á landsvísu. Lárus telur faraldurinn eiga þar hlut að máli, fólk vilji tryggja að það hafi kosið áður en það lendi í sóttkví eða jafnvel einangrun. Breytt viðhorf gagnvart atkvæðagreiðslunni spilar einnig inn í að hans mati.

„Áður fyrr var það í lögum að fólk þyrfti að kjósa á kjörstað ef það væri heima á kjördag. Þetta var í raun neyðarúrræði fyrir þá sem ekki gátu verið heima á kjördag. Svo er ekki lengur, þetta er hluti af kosningunni en ekki úrræði og stjórnvöld hafa hvatt fólk til að nýta sér þetta.“

Kosið er við Fjarðabyggðarhöllina í dag. Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.