Mest fjölgun íbúa á árinu í Fjarðabyggð

Íbúum Austurlands, frá Vopnafirði til Djúpavogs, hefur fjölgað um alls 190 einstaklinga frá áramótum. Mest í Fjarðabyggð en sveitarfélagið Múlaþing heldur þó enn titlinum fjölmennasta sveitarfélagið.

Það sýna glænýjar íbúatölur Hagstofu Íslands sem birtar voru í morgun um fjölgun íbúa á þessum þriðja ársfjórðungi.

Stofnunin breytti manntalsútreikningum sínum á vormánuðum þessa árs þegar eldri talningartölur sýndu ekki kórrétta mynd af fjölda íbúa landsins og hafa nú leiðrétt mannfjöldatölurnar aftur til ársins 2011 með breyttu verklagi.

Eins og Austurfrétt greindi frá í byrjun ársins mældist íbúafjöldi Múlaþings þá meiri en í Fjarðabyggð en það í fyrsta skipti í langan tíma sem mannfjöldi þeirra sveitarfélaga sem fyrir fáeinum árum urðu eitt undir hatti Múlaþings mældist meiri en Fjarðabyggð státaði af.

Fjarðabyggð sækir á hingað til en Múlaþing heldur titlinum sem fjölmennasta sveitarfélagið. Í Fjarðabyggð hefur fólki fjölgað um 90 manns, 5240 íbúar alls, en í Múlaþingi nemur aukningin 80 manns hingað til og er heildarfjöldinn 5.260 manns. 20 manns hafa bæst við íbúafjölda Vopnafjarðarhrepps það sem af er árs og þeir telja nú 660. Það einungis í Fljótsdalshreppi sem engin breyting hefur orðið frá áramótum og íbúafjöldi þar enn 90 manneskjur.

Alls búa nú 11.250 einstaklingar á Austurlandi öllu en þeim fjölgað frá árinu 2011, fyrsta árið sem endurskoðaðar tölur Hagstofunnar ná til, um 1.130 einstaklinga. Samkvæmt því hefur árleg fólksfjölgun í fjórðungnum verið um 87 einstaklingar árlega síðustu þrettán árin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar