Mest hlutfallsleg fækkun skemmtiferðaskipa og farþega til Seyðisfjarðar

Samkvæmt áætlun Ferðamálastofu mun áfram draga úr umferð skemmtiferðaskipa til Seyðisfjarðar á næsta ári eins og raunin hefur verið á yfirstandandi ári. Flest skip komu þangað í höfn 2023 eða 114 talsins en verða á næsta ári 89.

Ferðamálastofa hefur unnið greiningu á stöðu og horfum á umferð skemmtiferðaskipa til Íslands en þar litið sérstaklega til þeirra sex hafna landsins sem flest skip og eða farþega taka mót. Á Austurlandi er það aðeins Seyðisfjörður sem kemst á þann lista. Metárið 2023 nam hlutdeild Seyðisfjarðar í heildartekjum hafna af komum skemmtiferðaskipa 8 prósentum. Faxaflóahafnir, Akureyri og Ísafjörður töluvert fyrir ofan Seyðisfjörð.

Það segir þó aðeins hálfa sögu að miða við metárið 2023 því það ár tóku komur skemmtiferðaskipa til Seyðisfjarðar mikinn kipp frá árunum á undan. 2022 var fjöldi þeirra til dæmis aðeins 72 talsins sem þá var einnig metfjöldi. Einnig þarf að taka tillit til að greinarmunur er á fjölda skipa annars vegar og fjölda gesta sem með þeim kemur.

Hlutfallslega varð fækkunin mest á Seyðisfirði á yfirstandandi ári eins og sést á meðfylgjandi töflu. Þar sést að skipakomunum fækkaði þar um 15,8 prósent milli 2023 og 2024 eða mest allra hafnanna en farþegum þessara skipa fækkað einnig um 16,6 prósent. Aðeins á Ísafirði fækkaði farþegum hlutfallslega meira, um 27,6 prósent, en á móti kemur að farþegafjöldi þangað er þrefalt meiri en til Seyðisfjarðar kemur.

Ferðamálastofa setur varnagla við áætlanir fram í tímann með tilliti til aukinnar gjaldtöku ríkisins af komum þeirra frá og með næstu áramótum. Þegar hefur eitthvað borið á afbókunum skemmtiferðaskipa austur á land næstu tvö árin en óljóst hvort það tengist beint aukinni gjaldtöku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.