Mest tjón lögreglubifreiða í Eskifjarðarumdæmi
Langmesta tjón á hvern ekinn kílómeter lögreglubifreiða á síðasta ári var í umdæmi lögreglunnar á Eskifirði. Einn árekstur við erfiðar aðstæður skýrir þessa tölu.
„Ökutæki frá okkur lenti í árekstri í febrúar 2011 í miklum krapaelg og stórskemmdist að framan,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn í umdæmi sýslumannsins á Eskifirði. Tjón á lögreglubifreiðum umdæmisins á árinu var tæpar 2,3 milljónir króna eða 14,1 kr/km. Sú tala er hlutfallslega mun hærri en hjá nokkru öðru umdæmi á landinu. Umræddur árekstur skýrir töluna.
Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu starfshóps ríkislögreglustjóra um eftirlit með ökutækjum lögreglunnar. Til samanburðar má nefna að tjónakostnaður á hvern ekinn kílómeter í umdæmi nágrannanna á Seyðisfirði var 0,2 kr. í fyrra. Í Eskifjarðarumdæminu eru átta tökutæki í notkun og voru þau alls ekin 161.000 kílómetra í fyrra. Í Seyðisfjarðarumdæminu eru ökutækin fjögur og eknir kílómetrar 107.000.
Í skýrslunni er að finna tölur allt aftur til ársins 2007. Fyrir utan árið í fyrra er tjónakostnaður í austfirsku umdæmunum sambærilegur og í öðrum umdæmum. Þróunin hefur verið sú að akstur ökutækja lögreglunnar hefur dregist verulega saman og tjónum fækkað. Flest tjónin verða við dagleg störf og má í mörgum tilfellum reka til óvarkárni þegar ekið er utan í hluti eða önnur ökutæki. Einnig er talsvert um skemmdarverk á lögreglubílum.