Mesta svartsýnin á horfur í efnahagsmálum
Stjórnendur fyrirtækja á Austurlandi, sunnan Fagradals, eru svartsýnastir landsmanna á horfur í efnahagsmálum. Þeir eru heldur ekki bjartsýnir á þróun afkomu fyrirtækja sinna. Á sama svæði er mikil þörf eftir fólki með ákveðna færni.Þetta kemur fram í könnun sem gerð var meðal fyrirtækja í öllum landshlutum, öðrum en höfuðborgarsvæðinu, síðasta vetur í samvinnu Byggðastofnunar og landshlutasamtaka.
Vart er hægt að segja að bjartsýnin sé ríkjandi hjá austfirskum atvinnurekendum, miðað við könnunina. Austfirskir atvinnurekendur voru þeir einu sem reiknuðu með að þurfa að fækka starfsfólki á næstu 12 mánuðum. Undantekningin þar voru fyrirtæki á svæðinu í landbúnaði sem reiknuðu með að fjölga.
Afkoma fyrirtækja bæði síðasta ár og undanfarin 5-10 ár mældist verst á Austurlandi þegar landshlutarnir voru bornir saman. Fyrirtæki í landbúnaði komu verst út á Austurlandi en fyrirtæki í sjávarútvegi best. Þá var afkoman lakari norðan Fagradals en sunnan hans.
Þá var bjartsýni meðal fyrirtækja á Austurlandi minnst þegar spurt var um væntingar til tekna á yfirstandandi starfsári og stjórnendur sunnan Fagradals voru svartsýnastir á afstöðu til útlits í efnahagsmálum. „Um þessa afstöðu ríkti mikill einhugur,“ segir í niðurstöðunum.
En það var ekki bara svartnætti í svörum Austfirðinganna. Hlutfall tekna af menningu og listum voru þannig næst hæst á svæðinu norðan Fagradals þegar landssvæði voru borin saman. Þá er líka ljóst að verulegar tekjur renna í gegnum fjórðunginn af ferðamönnum því hlutfall tekna fyrirtækja af sölu þjónustu til ferðamanna mældist hvergi hærra í samanburði landshluta.
Þá er mikil þörf fyrir starfsfólk með ákveðna færni á Austurlandi, einkum í þjónustustörfum og þörfin heldur meiri á svæðinu sunnan Fagradals.