Mesta úrkoman mældist í Neskaupstað
Mesta úrkoman sem mældist í úrhellisrigningu á Austfjörðum í síðustu viku var í Neskaupstað. Úrkomumet var sett á Fáskrúðsfirði. Tugir ára líða á milli slíkra atburða. Tilkynnt var um aurskriður á fjórum stöðum í fjórðungnum.Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands fyrir Austurfrétt um veðrið í síðustu viku. Appelsínugul viðvörun var í gildi allan síðasta þriðjudag vegna þessa.
Þar er rakið að tvær lægðir fyrir sunnan og suðaustan landið hafi borið með sér mikla úrkomu. Þannig hafi allt að 300 mm úrkoma sést í spám. Jafnframt hafi sést að austfirsku fjöllin myndu ráða hvar regnið félli, útlit hafi verið fyrir úrhelli á fjörðum en tiltölulega lítið regn á Fljótsdalshéraði.
Hvar rigndi mest?
Mesta úrkoman þessa tvo daga var í Neskaupstað, 263,9 mm. Norðfjörður var einnig með mestu 12 tíma úrkomuna, 116,2 mm og mestu sólarhrings úrkomuna, 171,6 mm.
Mesta úrkoma á einni klukkustund mældist að Ljósalandi í Fáskrúðsfirði, 15,8 mm. Þar var 107,4 mm úrkoma yfir 12 tíma og 161,5 mm á sólarhring. Það er hið mesta síðan mælingar hófust með sjálfvirkri stöð þar árið 2008. Slík stöð hefur verið starfrækt í Neskaupstað frá 1997.
Erfiðar mælingar og samanburður
Bent er á að úrkomumælingar séu erfiðar í jafn vindasömu landi og Íslandi því erfitt getur reynst að fanga dropana. Þá hefur landslagið einnig mikil áhrif um hvar regnið fellur, eins og sést á talsverðum mun, frá 183 upp í 268 mm. milli þeirra fjögurra veðurstöðva sem staðsettar eru í Seyðisfirði. Eins getur verið munur milli mannaðra og sjálfvirkra stöðva. Á Teigarhorni var 33 mm. munur, sjálfvirku stöðinni í vil, þótt mælarnir teljist vera á sama stað
Greint hefur verið frá því að samkvæmt alþjóðlegum stöðlum sé von á sambærilegri úrkomu á Norðfirði á um 100 ára fresti. Um þetta segir Veðurstofan að um sé að ræða skýrslu frá 2020 þar sem settir séu fyrirvarar um veðurstöðvar þar sem mikill munur sé á mældri og reiknaðri úrkomu. Stöðin í Neskaupstað sé þar tekin sem dæmi um slíkt.
Hins vegar séu til gögn sem sýni að von sé á úrkomu sem þessari á 20-30 ára fresti á Norðfirði og 25-50 ára á Eskifirði, sem telst mjög sjaldgæft.
Tilkynnt var um aurskriður á fjórum stöðum. Fjórar litlar féllu við gangamunna Norðfjarðarganga í Fannardal, ein við Eyri í Reyðarfirði og ofan við Dvergastein í Seyðisfirði sprakk fram lítil fylla. Stærsta skriðan féll niður á Borgartanga, rétt fyrir utan þéttbýlið í Seyðisfiðri. Hún fór þar yfir veg og fyllti malarnámu.
Skriðdan á Borgartanga. Mynd: Veðurstofan/Bjarki Borgþórsson