Meta aðstæður á Hryggstekk
Vinnuflokkur frá Landsneti er á leið að tengivirki við bæinn Hryggstekk í Skriðdal. Varaafl er keyrt á nokkrum stöðum.„Það er lítið hægt að segja hvað er að eða hvenær rafmagn kemst á að nýju fyrr en vinnuflokkurinn er kominn að Hryggstekk,“ segir Einar Einarsson, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Rafmagnslaust hefur verið á nær öllu Austurlandi frá því klukkan 10:05 í morgun þegar útleysing varð á Fljótsdalslínu 2 sem liggur úr Fljótsdalsstöð í Hryggstekk. Álverið á Reyðarfirði fær rafmagn eftir sérstökum línum sem liggja samsíða þeirri sem er úti, en þær hafa hins vegar haldist inni. Hjá álverinu hefur mesta áskorunin verið að fullmanna vaktir en starfsmannarútan frá Egilsstöðum fór ekki til Reyðarfjarðar í morgun.
Varaafl er keyrt á Vopnafirði og óskað hefur verið eftir keyrslu þess í Neskaupstað og Seyðisfirði.