Metaðsókn olli lúxusvandamáli á fjórða Matarmóti Austurlands

Fjórða Matarmót Austurlands fór fram fyrir skömmu og tókst með afbrigðum vel enda slagaði fjöldi gesta þær þrjár stundir sem opið var fyrir almenning hátt í þúsund manns. Sá mikli fjöldi setti reyndar eina strikið í reikninginn.

Það viðurkennir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, skipuleggjandi mótsins fyrir hönd Austurbrúar, en fljótt kom í ljós eftir opnunina í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum að fjöldinn var svo mikill í þröngum rýmum hússins að hluti gesta gafst upp vegna troðnings en ekki síður vegna mikils hita sem fljótt myndaðist innandyra. Undruðust margir gestanna hvers vegna húsið allt hefði ekki verið allt nýtt undir svo merkan viðburð.

„Þetta var einfaldlega miklu meiri fjöldi gesta en við höfðum vonir um og ef hægt er að tala um lúxusvandamál þá var það þarna. Áhuginn var svo mikill að það var komin ágæt röð fólks töluvert fyrir opnunina. Við vorum með einstaklinga að telja við dyrnar og samkvæmt þeim tölum komu um 900 manns. En sökum troðnings náðist ekki að hefja talninguna fyrr en nokkrum mínútum eftir opnun þannig að það er sennilega ekki fráleitt að gefa sér að heildarfjöldinn hafi verið nálægt þúsund manns. Sem er stórkostlegt í alla staði en mun fleiri en við áttum von á. Við lærum af þessu fyrir næsta mót.“

Ráðstafanir gerðar fyrir næsta mót

Ástæður þess að ekki var mögulegt að nýta allt húsið meðan á mótinu stóð voru meðal annars að eitt rými þess var undir sérstaka sýningu Sláturhússins um listamanninn Kjarval.

Halldóra segir þegar búið að gera áætlanir um að fá stærri hluta hússins fyrir fimmta matarmótið að ári. Ekki sé heldur útilokað að hægt verði að nýta gamla braggahúsið við hlið Sláturhússins með einhverjum hætti þegar þar að kemur og það í skoðun.

Vel af látið að öllu öðru leyti

Þrátt fyrir troðning og hita létu langflestir gestir vel af. Ekki aðeins var metfjöldi gesta heldru hafa aldrei áður fleiri austfirskir framleiðendur kynnt vörur sínar á einum stað. Að frátöldum fjölda smáframleiðenda sem kynntu sitt bauð hópur þekktra og lærðra kokka upp á ýmsar kræsingar úr héraði framreiddar eða eldaðar á nýstárlegan máta. Raspaðir hrútspungar þóttu til dæmis mörgum góðgæti en í tilfellum einungis áður en efniviðurinn undir raspinu varð mönnum ljós. Ýmis konar laxaréttir framreiddir að hætti danska verðlaunakokksins Michael Pedersen fengu toppeinkunn og þá vakti framlag nokkurra færeyskra smáframleiðenda, eins og ostar, kex og rabbabaravín mikla lukku.

Sömuleiðis fannst mörgum gestanna ekki miður að komast í návígi við marga frambjóðendur Norðausturkjördæmis til Alþingis sem á staðnum voru að hitta fólk og kynna sín sjónarmið.

Fjöldi aðila kynntu sitt fyrir gestum matarmótsins á báðum hæðum Sláturhússins. Mynd Austurbrú/Esther Ösp Gunnarsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.