Metfjöldi ferðafólks í Hafnarhólmann

Þó enn vanti fjóra mánuði upp á að árinu ljúki er þegar ljóst að aldrei hafa fleiri ferðamenn sótt Hafnarhólmann heim. Aukningin hartnær 30% frá fyrra ári sem einnig var metár frá því að formlegar mælingar hófust.

Alls hafa, samkvæmt talningum Ferðamálastofu, rúmlega 63 þúsund gestir gert sér far um að vitna lundabyggðina í Hafnarhólmanum á Borgarfirði eystri hingað til eða tæplega 14 þúsund fleiri en allt árið í fyrra. Daglegir gestir flestir í júlímánuði um 700 talsins eða um 200 fleiri en mest gerðist 2023.

Hafnarhólminn engu að síður ekki hálfdrættingur á við umferðina við Stuðlagilið á Efri-Jökuldal þetta árið. Mælingar bæði Grundar- og Klausturselsmegin gilsins fræga sýna að fjöldinn hingað til telur rúmlega 144 þúsund manns eða rúmlega 1500 daglega gesti. Vantar 55 þúsund gesti til að toppa gestafjölda síðasta árs en enn eru fjórir mánuðir til stefnu.

Fækkun mælist á ferðamannafjölda við Hengifoss miðað við árið í fyrra. Þá taldi Ferðamálastofa rúmlega 114 þúsund gesti en aðeins 54 þúsund hingað til 2024. Á því er þó sú skýring að engar mælingar fóru þar fram fyrr en í byrjun maí svo munurinn er ómarktækur.

Lundanum fækkar víðast hvar nema á Austurlandi og óvíða kemst fólk í meira návígi við þessa merku fugla en í Borgarfirðinum þeim eystri. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar