#metoo: Málefni sem hefur snert nánast hvert einasta mannsbarn í okkar samfélagi síðustu vikurnar

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hyggst standa fyrir jafnréttis- og kynjafræðslu meðal starfsmanna sveitarfélagsins í ár. Þá verður myndaður starfshópur til að bregðast við kynferðislegri og áreitni í starfsumhverfi Fjarðabyggðar. Bæjarfulltrúar fagna aðgerðunum.

„Þetta er mikilvægt og þarft mál sem snert hefur nánast hvert einasta mannsbarn í okkar samfélagi síðustu vikurnar. Ég er þakklát fyrir framlag Fjarðabyggðar,“ sagði Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi Fjarðalistans sem mælti fyrir sameiginlegri bókun bæjarstjórnar.

Aðgerðaráætlun fyrir 1. mars

Í umboði bæjarstjórnar skipaði bæjarráð fimm manna starfshóp sem í sitja Jens Garðar Helgason, sem jafnframt er formaður og Eydís úr bæjarráði, Hulda Sigrún Guðmundsdóttir formaður félagsmálanefndar, Gunnar Jónsson bæjarritari og Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir félagsmálastjóri.

Starfshópnum er ætlað að gera tillögur að aðgerðum til að bregðast við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í starfsumhverfi Fjarðabyggðar og meta umfang vandans. Hópurinn á að skila af sér aðgerða áætlun fyrir 1. mars en í framhaldinu er gert ráð fyrir að fara yfir ýmsar stefnur og verklagsreglur sveitarfélagsins.

Þá samþykkti bæjarstjórnin á síðasta fundi sínum fyrir jól tillögu bæjarstjóra að ráðist verði í jafnréttis- og kynjafræðslu þvert á allar stofnanir Fjarðabyggðar á fyrri hluta ársins. Lögð verði áhersla á fræðsluna meðal stjórnenda í stjórnendafræðslu en þeim er ætlað að taka málin inn í árlega starfsþróun og starfsþróunarviðtöl.

Hluti af menningu sem því miður hefur blómstrað

Tillögurnar eru lagðar fram í framhaldi af #metoo byltingunni gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi á heimsvísu. Konur úr íslenskum stjórnmálum stigu til dæmis fram og deildu reynslusögum sínum undir yfirskriftinni „Í skugga valdsins.“ Konur úr fleiri starfsstéttum hafa sigið fram.

„Þetta er afar stórt og mikilvægt máli og mikilvægt að tekið sé á því á þann hátt að allir sameinist. Þetta virðist vera á öllum vígstöðum sem hluti af þeirri menningu sem því miður hefur náð að blómstra hjá okkur,“ sagði Einar Már Sigurðsson, annar fulltrúi Fjarðalistans.

Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri sagði að vel hefði gengið að vinna eftir þeim verkferlum sem til staðar væru þegar á þá hefði reynt. Mikilvægt væri að taka á málum strax en einnig væri mikilvægt að til staðar væru forvarnir.

Líka ábyrgð foreldra

„Við verðum að snúa bökum saman til að takast á við þá menningu sem þrifist hefur og þrífst enn í samfélaginu. Manni finnst skelfilegt að lesa um hluti og hversu inngrónir þeir virðast orðnir í einhverja menningu í samfélaginu og innan stétta,“ sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar.

Hann vakti athygli á aðgengi ungmenna að klámfengnu efni. „Kannski hefur sjaldan verið meiri þörf á jafnréttis- og kynjafræðslu. Sú miðlun afþreyingarefnis sem er í gangi hefur gert ástandið enn verra. Hversu ung eru börn þegar þegar þau taka þátt í slíkri miðlun?

Þessa umræðu þarf ekki bara að taka í skólunum heldur líka inni á heimilunum. Við megum ekki gleyma okkur í að þetta sé bara á ábyrgð skólanna heldur líka okkar sem eigum börn og ölum upp nýja kynslóð. Við viljum að þetta samfélag standi jafnt með öllum óháð kyni og stöðu.“

Jens Garðar sagði mikilvægt að #metoo umræðan markaði stefnubreytingu til lengri tíma. „Þetta er umræða sem má ekki gleymast þótt hún sé í hámæli núna. Þetta er ekki iðnaðarsalt í appelsíninu, þetta er miklu stærra. Við verðum að halda þessu lifandi og gera stefnubreytingu til lengri tíma.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.