Metveiði í Breiðdalsá í sumar

jokuldalslax.jpgNýtt met var slegið í veiði í Breiðdalsá í sumar þegar 1430 laxar komust á land. Stærsti laxinn var tíu kílógramma hrygna. Ríflega fimm hundruð laxar veiddust á Jöklusvæðinu.

 

Þetta kemur fram í frétt á vef veiðiþjónustunnar Strengja. Þar segir að jöfn veiði hafi verið í Breiðdalsá allt sumarið, nema í byrjun júní þegar flæddi.

Þröstur Elliðason, stjórnandi veiðiþjónustunnar, veiddi sjálfur stærsta laxinn, 97 cm og 10 kg hrygnu í byrjun ágúst. Nokkrir stórir sluppu þó.

Silungsveiðin var minni en oft áður. Um 200 urriðar komu á land og um 100 bleikjur. Þröstur segir það þá veiði nokkur vonbrigði, sérstaklega í sjóbleikju.

Á Jöklusvæðinu, með þveránum Laxá, Fossá og Kaldá, veiddust 507 laxar og 57 laxar til viðbótar í Fögruhlíðará. Mikið af vænum laxi veiddist og segir Þröstur að ekki sé síður von á stórlöxum þar en í Breiðdalsá þegar fram í sækir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar