Ómögulegt að hafa samræmd próf á sama tíma og göngur og réttir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. mar 2012 17:59 • Uppfært 08. jan 2016 19:22
Tímasetning samrændra könnunarprófa í fjórðu, sjöundu og tíundu bekkjum grunnskóla þykir óhentug fyrir krakka í sveitum. Á þetta benda bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og skólanefnd Hallormstaðarskóla.
Bæjarstjórnin samþykkti fyrir skemmstu tillögu Stefáns Boga Sveinssonar um að því yrði beint til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að endurskoða tímasetningu prófanna, sem eru í september, með tilliti til þess að nemendur í dreifbýli „geti tekið virkan þátt í göngum og réttum.“
Vísað er til þess að skólar í dreifbýli hafi oftar en ekki tekið tillit til mikilvægra þátta í menningar- og atvinnulífi í landbúnaðarhéruðum og æskilegt sé að svo geti verið áfram.
Undir þetta tekur skólanefnd Hallormsstaðarskóla. „Tímasetningin er á þeim tíma sem göngur og réttir standa yfir í skólahverfi skólans en mikilvægt er að nemendur hafi tækifæri til virkrar þátttöku í þeim verkefnum.“