Miðflokkurinn mælist með mest fylgi í Norðausturkjördæmi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. okt 2024 18:18 • Uppfært 18. okt 2024 18:41
Miðflokkurinn mælist með langmesta fylgið í Norðausturkjördæmi í könnun sem Maskína birti í dag. Ljóst er þó að mikil hreyfing er á fylgi flokkanna eftir stjórnarslitin síðasta sunnudag.
Könnun Maskínu var gerð dagana 2. – 18. október. Hún er brotin niður eftir kjördæmum og er töluvert stór, í Norðausturkjördæmi eru 223 svör.
Miðflokkurinn mælist stærstur með 23,6% og þrjá þingmenn. Ekki vantar mikið upp á þann fjórða. Samfylkingin mælist með 16,4% og tvo þingmenn. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mælast í kringum 14% og tvo þingmenn hvor. Flokkur fólksins kemur að þingmanni með 8,3%. Aðrir flokkar mælast ekki með þingmann. Næstur inn er þó fyrsti þingmaður Viðreisnar á kostnað annars þingmanns Framsóknarflokksins.
Nánari sundurliðun á könnunini má finna í grafíkinni hér að neðan. Rétt er að hafa í huga að reiknað er út frá 10 þingmönnum en réttara er að níu eru kjördæmakjörnir en sá tíundi jöfnunarþingmaður. Þannig hafa úrslit annars staðar áhrif á hann í kosningum og því illmögulegt að segja hvar hann endar.
Í gögnum Maskínu má finna samanburð á fylgi flokka á landsvísu fyrir og eftir stjórnarslit. Þeir flokkar sem bæta við sig eftir þau eru Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Flokkur fólksins og Vinstrihreyfingin- grænt framboð. Á móti tapa Samfylkingin, Píratar, Viðreisn, Sósíalistaflokkurinn og Lýðræðisflokkurinn.