Miðflokkurinn mælist með mest fylgi í Norðausturkjördæmi

Miðflokkurinn mælist með langmesta fylgið í Norðausturkjördæmi í könnun sem Maskína birti í dag. Ljóst er þó að mikil hreyfing er á fylgi flokkanna eftir stjórnarslitin síðasta sunnudag.

Könnun Maskínu var gerð dagana 2. – 18. október. Hún er brotin niður eftir kjördæmum og er töluvert stór, í Norðausturkjördæmi eru 223 svör.

Miðflokkurinn mælist stærstur með 23,6% og þrjá þingmenn. Ekki vantar mikið upp á þann fjórða. Samfylkingin mælist með 16,4% og tvo þingmenn. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mælast í kringum 14% og tvo þingmenn hvor. Flokkur fólksins kemur að þingmanni með 8,3%. Aðrir flokkar mælast ekki með þingmann. Næstur inn er þó fyrsti þingmaður Viðreisnar á kostnað annars þingmanns Framsóknarflokksins.

Nánari sundurliðun á könnunini má finna í grafíkinni hér að neðan. Rétt er að hafa í huga að reiknað er út frá 10 þingmönnum en réttara er að níu eru kjördæmakjörnir en sá tíundi jöfnunarþingmaður. Þannig hafa úrslit annars staðar áhrif á hann í kosningum og því illmögulegt að segja hvar hann endar.

Í gögnum Maskínu má finna samanburð á fylgi flokka á landsvísu fyrir og eftir stjórnarslit. Þeir flokkar sem bæta við sig eftir þau eru Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Flokkur fólksins og Vinstrihreyfingin- grænt framboð. Á móti tapa Samfylkingin, Píratar, Viðreisn, Sósíalistaflokkurinn og Lýðræðisflokkurinn.





Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.