Skerða stuðningsþjónustu við eldri borgara í Fjarðabyggð

Frá og með áramótum þurfa eldri borgarar sem notið hafa heimaþrifa gegnum stuðningsþjónustu sveitarfélagsins að ganga gegnum sérstakt mat til að fá þá þjónustu áfram. Ellegar verður fólk sjálft að verða sér úti um slíka þjónustu.

Tillaga þessa efnis frá fjölskyldusviði var samþykkt á fundi bæjarráðs fyrr í vikunni en tillagan tekur aðeins til þeirra einstaklinga sem einungis hafa nýtt sér heimaþrifsþjónustu en enga aðra almenna stuðningsþjónustu sveitarfélagsins.

Í samanburði við mörg önnur sveitarfélög landsins er þjónusta Fjarðabyggðar almennt mikil gagnvart eldri borgurum. Mælist þjónustustig sveitarfélagsins 24% fyrir íbúa 67 ára og eldri meðan þjónustustig annarra sveitarfélaga er á bilinu 8 - 20%.

Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, segir í rökstuðningi vegna breytinganna að hingað til hafi heimilisþrif að miklu leyti tekið mið af nokkuð úreltum veruleika enda sé heilsa eldri borgara nú mikið mun betri almennt en áður hafi verið raunin. Margir hafi nýtt úrræðið gegnum tíðina sökum réttar þar um fremur en beina þörf.  Þá er einnig litið til þess að Samkeppniseftirlitið hefur gagnrýnt að opinberir aðilar sinni störfum í beinni samkeppni við einkaaðila en þrifafyrirtæki eru til staðar í sveitarfélaginu.

Þjónustuþegar sem aðeins nýta sér heimaþrif þurfa því sjálfir að verða sér úti um þá þjónustuna frá áramótum. Hins vegar tekið fram að séu einstaklingar við eða undir eigna- og tekjumörkum strípaðs ellilífeyris sé hægt að sækja um fjárhagsstuðning til sveitarfélagsins.

Eldri borgarar í Fjarðabyggð njóta ýmiss stuðnings sveitarfélagsins sem mörg önnur sveitarfélög bjóða ekki. Mynd Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.