Miðflokkurinn með langmest fylgi á Austurlandi
Miðflokkurinn mælist með langmest fylgi á Austurlandi í nýrri könnun en Sjálfstæðisflokkurinn er innan við 10%. Samfylkingin kemur þar á eftir og svo Framsókn.Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Maskína birti í lok ágúst. Á landsvísu mælist Samfylkingin stærst með 25% fylgi og á Austurlandi mælist hún með 25,4%.
Hún hefur þó ekkert í Miðflokkinn sem mælist með 33,7% fylgi á Austurlandi. Það er 10% aukning frá könnun sem gerð var í júní og langsterkasti landshluti flokksins. Á sama tíma er Framsóknarflokkurinn með 10% minna en þá eða 12,5%.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar 13%, mælist í 7,4% sem er langversta útkoma flokksins þegar horft er yfir landið. Flokkur fólksins er með 6,7%, Vinstrihreyfingin – grænt framboð 4,8%, Viðreisn 4,6%, Sósíalistaflokkurinn 2,7% og Píratar 2,3%. Svörin frá Austurlandi eru alls 57 talsins.
Hver er staðan í Norðausturkjördæmi?
Könnun er ekki brotin niður eftir kjördæmum heldur landssvæðum. Þunginn af Norðausturkjördæmi, sem og Norðurlandi, er hins vegar á Eyjafjarðarsvæðinu. Með að bæta því svæði við Austurlandstölurnar má leiða að því líkur að þar með séu komnar tölur sem gefi mynd af stöðunni í kjördæminu. Ekki síst vegna þess að 202 svör eru frá Norðurlandi.
Með þeim verður Samfylkingin stærst, með 22,2%, Miðflokkurinn næstur með 20,6%, Framsóknarflokkurinn fær 15%, Sjálfstæðisflokkurinn 13,8%, Flokkur fólksins 7%, Viðreisn 6,5%, VG 5,7%, Píratar 5% og Sósíalistaflokkurinn 4,2%.
Miðað við að 10 þingsæti séu í kjördæminu fengju Samfylking þrjá fulltrúa, Miðflokkur, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur tvo og Flokkur fólksins einn. Næstir inn eru þriðji fulltrúi Miðflokksins og síðan fyrstu fulltrúar Viðreisnar og síðan VG. Mjög lítill munur er á þriðja manni Miðflokks og öðrum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og fyrsta fulltrúa Flokks fólksins.
Leiðrétt: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var reiknað út frá 11 þingsætum í Norðausturkjördæmi. Þau eru tíu.