Miðflokkurinn skoðar framboðsmál: Það er maður að tala við mann

Félagar í Miðflokknum skoða þessa dagana möguleika á framboðum til sveitastjórna á Austurlandi. Lengst eru málin komin í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði en áhugi er á framboðum víðar um kjördæmið.

„Það eru pælingar í gangi, mikill áhugi en ekkert í hendi enn,“ segir Hannes Karl Hilmarsson, formaður nýstofnaðs kjördæmisfélags flokksins í Norðausturkjördæmi.

„Það eru þreifingar í nokkrum kaupstöðum í kjördæminu. Þær eru hvergi komnar á það stig að hægt sé að gefa út 100% að það verði boðið fram en það er ansi líklegt víða. Það er maður að tala við mann og áhugi víða sem er jákvætt.“

Miðflokkurinn auglýsti í byrjun árs eftir áhugasömu fólki á Fljótsdalshéraði og samkvæmt heimildum Austurfréttar er góður gangur í undirbúningi framboðs í Fjarðabyggð. Hannes kvaðst geta staðfest að þreifingar væru í báðum sveitarfélögunum.

Aðspurður sagði hann ennfremur að oddvitaefni væru í handraðanum en of snemmt væri að opinbera nöfn þeirra.

Eins hefur spurst til þreifinga um framboð Miðflokksins á Seyðisfirði. Hannes segir þær skemur á veg komnar heldur en í stóru sveitarfélögunum tveimur.

Hannes var kjörinn formaður kjördæmisfélagsins á stofnfundi sem haldinn var í Valaskjálf sunnudaginn 28. janúar. Húsfyllir var á fundinum. „Það kom skemmtilega á óvart. Það er ekki alltaf auðvelt að fá fólk á stjórnmálafundi. Við finnum fyrir miklum áhuga, flokkurinn fékk góða kosningu í kjördæminu og var ekki fjarri því að vinna það.“

Auk Hannesar, sem býr á Egilsstöðum, voru kosin í stjórn Sigríður Bergvinsdóttir og Bjarney Guðbjörnsdóttir á Akureyri, Guðný Heiða Gestsdóttir Húsavík og Magnea María Jónudóttir frá Fáskrúðsfirði.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður ávarpaði fundinn sem og Anna Kolbrún Árnadóttir, hinn þingmaður flokksins í kjördæminu. Að undanförnu hafa verið stofnuð kjördæmafélög um allt land en næsta skref í undirbúningi sveitarstjórnarkosninganna verður flokksráðsfundur í Reykjavík um helgina þar sem línur verða lagðar og stofnum deilda í þeim sveitarfélögum þar sem stendur til að bjóða fram.

Stjórn kjördæmisfélagsins. Frá vinstri: Bjarney, Guðný, Hannes, Magnea og Sigríður. Mynd: Miðflokkurinn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar