Mikið vatnsveður eystra: Gott að ekki var frost í jörðu – Myndir

Minni ár eru að verða orðnar eðlilegar en stærri ár eru jafnvel enn að vaxa eftir miklar rigningar eystra síðustu daga. Oddviti Fljótsdal segir vatnavexti sem þessa ekki óvenjulega en tíðarfarið sé það.


„Það var mikið vatn á ferðinni í gær. Allir lækir beggja megin í dalnum voru verulega myndarlegir, það flæddi um neðri hluta dalsins og vegir fóru í sundur,“ segir Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdals og bóndi á Víðivöllum Fremri.

Jökulsá í Fljótsdal náði hámarki á mæli við bæinn Hól klukkan átta í morgun en rennslið þar hafði þá tvöfaldast á innan við tveimur sólarhringum og vatnsyfirborðið hækkaði um 60 sm á þremur tímum.

Það hefur lækkað eftir því sem liðið hefur á daginn en í Lagarfljóti hefur það risið stöðugt. Samkvæmt mæli við Lagarfljótsbrú hækkaði það um metra á sólarhring.

„Það tekur alltaf tíma fyrir vatnið að koma innan af fjöllum þótt það hafi hætt að rigna í gærkvöldi,“ segir Gunnþórunn.

Lítil skriða féll ofan við bæinn Valþjófsstað en Gunnþórunn segist annars ekki hafa heyrt af skriðaföllum eða stórskemmdum.

Úrkoman var hins vegar ekki mest í Fljótsdal heldur í Neskaupstað þar sem hún varð um 130 mm á sólarhringnum. Víða flæddi yfir vegi, til dæmis við Naustá í Fáskrúðsfirði og þá fór brúin við Þingmúla í Skriðdal nánast á kaf, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Skriða féll í Vattarnesskriðum og við bæinn Áreyjar í Reyðarfirði gróf áin frá brúarstöpli.

Gunnþórunn segir Fljótsdælinga ekki óvana því að fá miklar rigningar á þessum árstíma. Þær hafi oft hitt verr á, hættara er við skriðuföllum þegar frost er í jörðum og vatnavextir verða enn meiri þegar snjór er til staðar bráðnar. Þessi atriði eru ekki til staðar nú. „Svona bleytuáhlaup eru ekki óvanaleg en tíðin er hins vegar skrýtin.“

Myndir úr Skriðdal og Fáskrúðsfirði í gær: Vegagerðin/Davíð Þór Sigfússon

20170209 Skriðdalur2 Web
Fáskrúðsfjörður Web
Fljotsdalur Vatn 20170210 0003 Web
Fljotsdalur Vatn 20170210 0008 Web
Fljotsdalur Vatn 20170210 0014 Web
Fljotsdalur Vatn 20170210 0023 Web
Fljotsdalur Vatn 20170210 0025 Web

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar