Mikið gekk á þegar áin ruddi sig

Mikil átök hafa verið þegar áin Hrafnkela ruddi sig um miðjan dag á laugardag. Vegurinn inn að Aðalbóli er stórskemmdur og neðan við Vaðbrekku hefur áin hlaðið upp nokkurra metra háum klakabúntum.

„Það var stífla fyrir neðan bæinn sem áin rann undir og framhjá. Hún hefur tekið þá stíflu en sett þetta upp í staðinn,“ segir Aðalsteinn Sigurðarson, bóndi á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. Neðan við bæinn hjá honum hefur áin staflað upp klakabúntum sem ná þrjá metra upp í loftið.

Aðalsteinn var ekki heima þegar háin ruddi sig um miðjan dag á laugardag. Hann sá hins vegar Jökulsá á Dal, sem Hrafnkela rennur í, ryðja sig við Hjarðarhaga þegar hann kom heim frá Egilsstöðum á sjötta tímanum. Sá ruðningur passar við að keðjuverkunin hafi hafist upp í Hrafnkelsdal.

Aðalsteinn áætlar að áin hafi rutt sig á kafla sem nær um tvo kílómetra inn fyrir bæ hans. Þar náði hún til að stórskemma veginn inn að innsta bænum, Aðalbóli. Á nokkurra metra kafla vantar hálfan vegin þar sem áin hefur tekið úr bakkanum.

„Hún gróf úr bökkum, skemmdi á Vaðbrekku girðingar og tún og svo tók hún úr veginum. Það eru sennilega fjórir metrar frá vegbrúninni niður í botn árinnar. Það er hægt að laumast þarna meðfram en það er hættulegt því áin hefur grafið innundir veginn.“

Aðalsteinn segir starfsmenn Vegagerðarinnar hafa skoðað aðstæður í dag en ekki sé ljóst til hvaða aðgerða verði gripið. „Hún hefur tekið einhver hundruð rúmmetra af efni.“

Íbúar á Hrafnkelsdal eru hins vegar ekki óvanir vondum vegi, Aðalsteinn segir hann hafa verið ónýtan í nokkur ár, í bleytutíð sem nú verði vegurinn að drullu og ófæran fólksbílum.

Þetta er í annað skiptið í vetur sem Hrafnkela ryður sig. Í fyrra skiptið ruddi hún sig hins vegar á fleiri stöðum og lengra inn eftir dalnum.

Myndir: Aðalsteinn Sigurðarson

hrafnkela 20180225 alli 1 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.